Erlent

Tíu ára fangelsi fyrir að sprauta ókunnuga konu með sæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Thomas Stemen elti tvær konur áður en hann stak Katie Peters.
Thomas Stemen elti tvær konur áður en hann stak Katie Peters. Getty

Thomas Stemen var í síðustu viku dæmdur til tíu ára fangelsisvistar fyrir að ráðast á konu í matvöruverslun í fyrra og sprauta sæði í hana. Stemen stakk Katie Peters í rassinn með sprautu sem innihélt sæði úr honum og sprautaði í hana.

Hún sló til hans og spurði hvort hann hefði brennt hana með sígarettu. Eftir það keyrði hún á brott en byrjaði fljótt að finna mikið til í sárinu. Það var ekki fyrr en hún var komin heim að hún fann stungusár á sér og vökva á buxunum sem hún leitaði til lögreglunnar í Churchton í Maryland, samkvæmt frétt Washington post.

Upptökur úr öryggismyndavélum í versluninni sýndu svo hvernig Stemen réðst á hana en sýndu einnig að hann hafði áður elt og reynt að stinga tvær aðrar konur, þar af eina sautján ára gamla, en án árangurs.

Hér má sjá myndband úr öryggismyndavél þegar Stemen réðst á Peters.

Lögregluþjónar notuðu þessa upptöku til að finna Stemen. Í bíl hans fannst sprauta með óþekktum „skýjuðum vökva“. Önnur sprauta með vökva fannst upp á skáp inn á baðherbergi og níu tómar fundust víðsvegar á heimilinu.

Sprauturnar voru sendar í rannsókn og leiddi hún í ljós að erfðaefni Stemen voru í vökvanum.

Peters sagði í viðtali við héraðsmiðilinn Fox 5 eftir árásina að hún hafi ekki haft hugmynd um hvað hefði verið í sprautunni. Það hefði þess vegna getað verið rottueitur eða Stemen hefði reynt að smita hana af HIV. Hún leitaði þó fljótt til læknis og fékk lyfjablöndu sem átti að hjálpa henni að koma í veg fyrir sýkingu.

Hér má sjá viðtal við Katie Peters í kjölfar árásarinnar í fyrra.

Eins og áður segir var Stemen dæmdur til tíu ára fangelsisvistar. Honum var einnig gert að fara í meðferð og gangast geðrannsókn að fangelsisvist hans lokinni, samkvæmt frétt CBS í Baltimore.

Anne Colt Leitless, ríkissaksóknari Maryland, segir árás Stemen hafa verið mjög ógnvænlega. Hann hafi markvisst ætlað sér að skaða grunlausar konur. Í yfirlýsingu sem hún birti segir hún að Stemen verði fjarlægður úr samfélaginu í langan tíma og þakkar þeim sem báru kennsl á hann í fyrra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×