Innlent

Slasaðist við að brjótast inn í Fimm­vörðu­skála í snældu­vit­lausu veðri

Atli Ísleifsson skrifar
Björgunarsveitarmenn þurftu að loka fyrir glugga á Fimmvörðuskála eftir að ferðamennirnir höfðu brotist þar inn.
Björgunarsveitarmenn þurftu að loka fyrir glugga á Fimmvörðuskála eftir að ferðamennirnir höfðu brotist þar inn. Landsbjörg

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út vegna tveggja ferðamanna sem höfðu lent í hrakningum í snælduvitlausu veðri þegar þeir voru á göngu yfir Fimmvörðuháls síðdegis í gær.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins, segir að útkallið hafi komið síðdegis í gær, en ferðamennirnir höfðu þá brotið sér leið inn í Fimmvörðuskála, skála Útivistar, eftir að hafa lent í slæmu verði.

„Þeir höfðu lent í hrakningum og virðast ekki hafa haft upplýsingar um lægðina sem gekk yfir landið. Annar þeirra slasaðist við það að brjótast inn í skálann. Björgunarsveitarmenn héldu þá af stað og gátu þá hlúð að sárum þessa manns sem hafði fengið skurð á hendi. Sömuleiðis gátu þeir lokað fyrir glugga sem þeir höfðu brotið til að komast inn.“

Fimmvörðuskáli á samnefndum hálsi.Vísir/Vilhelm

Festu bíl sinn

Davíð Már segir að björgunarsveitir og ferðamennirnir hafi verið komið til byggða um níuleytið í gærkvöldi.

„Björgunarsveitir þurftu svo líka að sinna útkalli síðdegis í gær eftir að fólk hafði fest bíl sinn í aurbleytu innarlega í Fljótshlíð eftir að hafa ætlað sér að keyra Syðra-Fjallabak. Fólkinu var komið til byggða en bíllinn skilinn eftir,“ segir Davíð Már. 

Davíð Már segir að nóttin hafi annars verið róleg hjá björgunarsveitum. „Það voru engin útköll í nótt en nú um klukkan níu í morgun voru björgunarsveitir á Austurlandi eftir að tjald við veitingastað fauk á Eskifirði,“ segir Davíð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×