Fótbolti

Zlatan skorað á 24 tímabilum í röð: „Hann verður ekki gamall“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic skoraði í fyrsta leik sínum fyrir AC Milan í fjóra mánuði.
Zlatan Ibrahimovic skoraði í fyrsta leik sínum fyrir AC Milan í fjóra mánuði. getty/Pier Marco Tacca

Zlatan Ibrahimovic skoraði í fyrsta leik sínum fyrir AC Milan eftir hnémeiðsli. Hann hefur nú skorað á 24 tímabilum í röð.

Zlatan, sem verður fertugur í byrjun næsta mánaðar, kom inn á sem varamaður á 60. mínútu í leik Milan og Lazio í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Sex mínútum síðar skoraði hann annað mark Milan.

Zlatan hefur verið frá keppni síðan í maí vegna hnémeiðsla en það var ekki að sjá á Svíanum í gær.

„Ibrahimovic verður aldrei gamall og býr yfir mikilli ástríðu. Hann spilar alltaf til að vinna, æfir á fullu og gerir það með bros á vör. Þegar þú ert þannig finnirðu ekki fyrir aldrinum,“ sagði Stefano Pioli, knattspyrnustjóri Milan, eftir leikinn á San Siro í gær.

Zlatan hefur nú skorað á 24 tímabilum í röð, eða frá því hann skoraði fyrir Malmö í sænsku úrvalsdeildinni tímabilið 1998-99. Auk Malmö og Milan hefur Zlatan leikið með Ajax, Juventus, Inter, Barcelona, Paris Saint-Germain, Manchester United og Los Angeles Galaxy.

Milan er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í ítölsku úrvalsdeildinni líkt og Roma og Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×