Fótbolti

Mögnuð Miedema mætir full sjálfs­trausts á Laugar­dals­völl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Megi allar góðar vættir vaka yfir varnarlínu Íslands er Vivianne Miedema mætir á Laugardalsvöll.
Megi allar góðar vættir vaka yfir varnarlínu Íslands er Vivianne Miedema mætir á Laugardalsvöll. David Price/Getty Images

Íslenska landsliðinu í fótbolta bíður ærið verkefni er það tekur á móti Hollandi þann 21. september á Laugardalsvelli þegar undankeppni HM fer af stað.

Anna Margaretha Marina Astrid Miedema, eða einfaldlega Vivianne Miedema, er 25 ára gömul og leikur með Arsenal á Englandi ásamt því að leika í appelsínugulri treyju hollenska landsliðsins.

Miedema hefur leikið með Heerenveen í heimalandinu, þaðan fór hún til Bayern Munchen í Þýskalandi og svo til Arsenal árið 2017. Hún skoraði mikið áður en hún flutti til Lundúna en síðan þá hefur hún ekki getað hætt að skora.

Hún skoraði tvö af fjórum mörkum Arsenal í 4-0 sigri á Reading um helgina. Hefur hún nú alls skorað þrjú deildarmörk í tveimur fyrstum leikjum Arsenal á leiktíðinni. Alls hefur Miedema leikið 111 leiki fyrir Arsenal og skorað í þeim 102 mörk.

Þá er árangur hennar með hollenska landsliðinu ágætur en hún hefur skorað 83 mörk í 100 leikjum fyrir þjóð sína. Var hún hluti af hollenska liðinu sem vann EM sumarið 2017 og lenti í öðru sæti á HM tveimur árum síðar.

Það er því ljóst að varnarlína Íslands á erfitt verkefni fyrir höndum er Holland mætir hingað til lands í undankeppni HM.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.