Fótbolti

Leikurinn við Ísland vinsælasta efnið í þýsku sjónvarpi í gær

Sindri Sverrisson skrifar
Brynjar Ingi Bjarnason reynri að halda Timo Werner í skefjum í leiknum á Laugardalsvelli í gærkvöld.
Brynjar Ingi Bjarnason reynri að halda Timo Werner í skefjum í leiknum á Laugardalsvelli í gærkvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Áhugi Þjóðverja var mikill á leiknum við Ísland í undankeppni HM karla í fótbolta í gær. Fleiri sáu þann leik en leiki Þýskalands við Armeníu og Liechtenstein.

Á vef Kicker er fjallað um þetta og þar segir að 7,34 milljónir Þjóðverja hafi að meðaltali verið að horfa á leikinn við Ísland í gær, á RTL sjónvarpsstöðinni. 

Þetta er aukning frá 2-0 sigri Þýskalands á Liechtenstein (6,74 milljónir Þjóðverja sáu hann) og 6-0 sigri liðsins á Armeníu (7,11 milljónir sáu hann).

Um 7,63 milljónir fylgdust með leiknum við Ísland í fyrri hálfleik en staðan var 2-0 að honum loknum. Aðeins færri, eða 7,06 milljónir, sáu Þjóðverja svo bæta við tveimur mörkum í seinni hálfleik. 

Samkvæmt RTL horfðu 28,9% sjónvarpsáhorfenda á landsleik Íslands og Þýskalands sem gerði hann að vinsælasta dagskrárefninu í þýsku sjónvarpi í gær.

Þjóðverjar lögðu mikið í sjónvarpsútsendinguna og hátt í hundrað manna teymi mætti til landsins til að sjá um hana. Sérstökum sjónvarpspöllum var komið fyrir í austurstúkunni svo hægt væri að mynda þaðan, og auglýsingaskilti voru sett upp fyrir framan vesturstúkuna sérstaklega fyrir útsendinguna. 

Fórna þurfti 500 sætum á Laugardalsvelli vegna þessa en það kom ekki að sök því samkomutakmarkanir komu í veg fyrir að sitja mætti í öllum sætum á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×