Fótbolti

Ísak Bergmann: Við ungu leikmennirnir erum að reyna að vinna okkur inn í þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í leiknum á móti Þjóðverjum í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leiknum á móti Þjóðverjum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Bergmann Jóhannesson var ánægður með hvernig ungu strákarnir komu inn í íslenska landsliðið í leikjunum þremur sem eru að baki. Íslenska liðið náði í eitt stig af níu mögulegum í þremur heimaleikjum.

„Það var erfitt að glíma við Þjóðverjana og við vissum það fyrir fram. Mér fannst við gera ágætlega í fyrri hálfleik en þetta voru skítamörk sem við fengum á okkur,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson eftir 4-0 tap á móti Þýskalandi í síðasta leik íslenska landsliðið í þessum landsleikjaglugga sem fram fór á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við fáum líka skyndisóknir. Ég fékk skot þarna og Jói líka. Svo vitum við það að þeir eru ógeðslega góðir og því fór sem fór,“ sagði Ísak en var hann svekktur að hafa ekki náð inn marki.

„Já algjörlega. Mér finnst sóknarleikurinn vera að koma hjá okkur þó að þetta hafi verið erfiður leikur á móti Þjóðverjum þá erum við að búa til færi og kannski vantar bara síðustu sendinguna og síðasta skotið. Við þurfum svolítið að skoða varnarleikinn finnst mér,“ sagði Ísak. Ísak fékk að spila mikið í þessum glugga.

„Þetta mun taka tíma. Við erum nokkrir ungir að koma inn í liðið og það eru forréttindi að fá að vera með þessum leikmönnum. Við ungu leikmennirnir erum að reyna að vinna okkur inn í þetta og það tekur tíma. Mér finnst við hafa gert okkar,“ sagði Ísak.

„Að vissu leyti var ég ánægður með mína frammistöðu. Ekki í öðrum leiknum en ég gerði allt sem ég gat í dag og í fyrsta leiknum kom ég með flotta innkomu. Maður vill alltaf gera betur. Maður þarf bara að halda áfram að læra af eldri leikmönnunum og vonandi munum við ungu leikmennirnir taka við keflinu og gera það gott,“ sagði Ísak en það má horfa á allt viðtalið við hann hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal við Ísak Bergmann



Fleiri fréttir

Sjá meira


×