Fótbolti

Andri Lucas yngsti og fljótasti Guðjohnsen til að skora fyrir íslenska A-landsliðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar marki sínu gegn Norður-Makedóníu.
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar marki sínu gegn Norður-Makedóníu. Vísir/Hulda Margrét

Andri Lucas Guðjohnsen fetaði í fótspor föður síns og afa síns þegar hann skoraði jöfnunarmark Íslands gegn Norður-Makedóníu á Laugardalsvelli á sunnudaginn. Hann varð jafnframt yngsti og fljótasti Guðjohnsen til að skora fyrir landsliðið.

Andri skoraði sitt fyrsta mark eftir að hafa komið inn á sem varamaður þann 5. september 2021.

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins og faðir Andra, skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið þegar hann kom inn á sem varamaður þann 4. september 1999. Það eru því 22 ár á milli marka feðganna, nánast upp á dag.

Andri Lucas er fæddur árið 2002 og hann var 19 ára, sjö mánaða og þriggja daga gamall þegar hann skoraði sitt fyrsta mark. Eiður var 20 ára, 11 mánaða og 20 daga gamall þegar hans fyrsta mark leit dagsins ljós, og sá elsti, Arnór Guðjohnsen var rúmlega 21 árs.

Andri er því yngstur af þeim sem bera nafnið Guðjohnsen til að skora fyrir íslenska landsliðið.

Fljótari en gömlu mennirnir

Hvorki faðir hans, né afi, skoruðu jafn snemma á sínum landsliðsferli og Andri. Arnór var að spila sinn níunda landsleik og það tók hann 734 mínútur að skora sitt fyrsta mark.

Eiður var heldur fljótari en pabbi sinn, en hann var að spila sinn annan leik og tók sér allt í allt 40 mínútur í að koma boltanum yfir marklínuna.

Sá yngsti var ekkert að slóra við þetta, en Andri hafði leikið samtals 13 mínútur í tveimur leikjum með landsliðinu þegar hann jafnaði metin fyrir Ísland gegn Norður-Makedóníu síðastliðinn sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×