Fótbolti

Nafnarnir verða heiðraðir fyrir leikinn gegn Þjóðverjum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þeir Birkir og Birkir spiluðu báðir sinn hundraðasta landsleik gegn Norður-Makedóníu í gær. Hér eru þeir í leik Íslands við Frakkland á EM 2016.
Þeir Birkir og Birkir spiluðu báðir sinn hundraðasta landsleik gegn Norður-Makedóníu í gær. Hér eru þeir í leik Íslands við Frakkland á EM 2016. Matthias Hangst/Getty

Nafnarnir Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson verða heiðraðir fyrir leikinn gegn Þjóðverjum í undankeppni HM 2022 á miðvikudaginn. Báðir spiluðu þeir landsleik númer 100 gegn Norður-Makedóníu í gær.

Hundraðast landsleikur nafnanna endaði með 2-2 jafntefli. Spilamennska liðsins var ekki upp á marga fiska lengst af, en strákarnir sýndu mikinn karakter þegar að þeir komu til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir.

Eins og áður segir verða Birkir og Birkir heiðraðir sérstaklega áður en þjóðsöngvar þjóðanna verða leiknir og KSÍ hvetur vallargesti til að mæta tímanlega til að hylla leikmennina.

Nafnarnir eru nú tveir af aðeins þremur leikmönnum sem hafa náð hundrað leikjum eða meira með íslenska A-landsliðinu. Rúnar Kristinsson var fyrir gærdaginn sá eini sem hafði náð þeim merka áfanga, en hann lék á sínum tíma 104 leiki fyrir Íslands hönd.

Birkir Már Sævarsson er 36 ára og nafni hans Bjarnason 33 ára, en þeir geta báðir bætt met Rúnars í nóvember á þessu ári. Íslenska landsliðið á eftir að spila fimm leiki á þessu ári og því gætu þeir orðið leikjahæstu menn íslenska landsliðsins frá upphafi þegar að liðið mætir Norður-Makedóníu ytra þann 14. nóvember.


Tengdar fréttir

Nafnarnir spiluðu sinn hundraðasta landsleik

Nafnarnir Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson spiluðu báðir sinn 100. landsleik fyrir hönd íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í 2-2 jafnteflinu við Norður-Makedóníu undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×