Fótbolti

Fyrrverandi landsliðsmaður Frakklands látinn eftir að hafa verið 39 ár í dái

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jean-Pierre Adams lék 22 leiki með franska landsliðinu á 8. áratug síðustu aldar.
Jean-Pierre Adams lék 22 leiki með franska landsliðinu á 8. áratug síðustu aldar. getty/Universal

Jean-Pierre Adams, fyrrverandi landsliðsmaður Frakklands í fótbolta, er látinn eftir að hafa verið í dái í 39 ár. Hann var 73 ára þegar hann lést.

Adams fæddist í Dakar í Senegal 1948 en fluttist til Frakklands þegar hann var tíu ára. Hann lék með nokkrum liðum í Frakklandi, meðal annars Nice og Paris Saint-Germain, og 22 landsleiki á árunum 1972-76.

Adams lagði skóna á hilluna 1981. Þann 17. mars ári seinna, þegar hann var 34 ára, fór Adams í aðgerð á hné í Lyon. Hún dró dilk á eftir sér.

Vegna mistaka svæfingarlæknis misheppnaðist svæfingin og Adams fór í dá. Og í því lá hann síðustu 39 ár ævi sinnar. Adams lést á spítala í Nimes í dag.

Daginn sem aðgerðin var framkvæmd var fjöldi starfsmanna spítalans í Lyon í verkfalli og svæfingalæknirinn sá um átta aðgerðir þann dag. Aðgerðin á Adams var ekki bráðnauðsynleg en var samt framkvæmd.

Eiginkona Adams, Bernadette, sinnti honum allt til dauðadags . Þau áttu tvö börn saman.

Jean-Pierre Adams and Marius Trésor spiluðu saman í miðri vörn franska landsliðsins.getty/Universal

Um miðjan 10. áratug síðustu aldar voru svæfingarlæknirinn og læknaneminn sem sáu um aðgerðina örlagaríku á Adams dæmdir til að greiða skaðabætur og voru sendir í leyfi í mánuð.

Robin Bairner skrifaði grein um Jean-Pierre Adams og líf hans í tímaritið The Blizzard 2014. Brot úr greininni má lesa á The Guardian, eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×