Fótbolti

Mikael Egill spilar með U-21 lands­liðinu á þriðju­dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael Egill á æfingu með íslenska A-landsliðinu ásamt Alberti Guðmundssyni.
Mikael Egill á æfingu með íslenska A-landsliðinu ásamt Alberti Guðmundssyni. Vísir/Vilhelm

Mikael Egill Ellertsson verður í leikmannahópi íslenska U-21 árs landsliðsins í knattspyrnu er það tekur á móti Grikklandi á morgun, þriðjudag. Hann verður því ekki í íslenska landsliðshópnum sem mætir Þýskalandi á miðvikudag.

Mikael Egill var í fyrsta sinn valinn í hóp íslenska A-landsliðsins fyrir leikina þrjá gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi. Hann hefur ekki spilað með liðinu í fyrstu tveimur leikjunum og hefur nú verið færður niður í U-21 árs landsliðið vegna meiðsla þar á bæ.

Finnur Tómas Pálmason og Brynjólfur Andersen Willumsson fóru meiddir af velli í 2-1 sigri liðsins á Hvíta-Rússlandi og því hefur Mikael Egill verið kallaður inn sem og Hjalti Sigurðsson, leikmaður Leiknis Reykjavíkur.

Ísland mætir Grikklandi í undankeppni EM 2023 á Fylkisvelli klukkan 17.00 á morgun, þriðjudaginn 7. september. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×