Fótbolti

Byrjunarlið Íslands: Birkir og Birkir í 100 landsleiki en Jóhann ekki með

Sindri Sverrisson skrifar
Þeir Birkir og Birkir eru á leið í 100 landsleikja klúbbinn. Hér eru þeir í leik Íslands við Frakkland á EM 2016.
Þeir Birkir og Birkir eru á leið í 100 landsleikja klúbbinn. Hér eru þeir í leik Íslands við Frakkland á EM 2016. Matthias Hangst/Getty

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hefur tilkynnt hvaða leikmenn byrja leikinn við Norður-Makedóníu klukkan 16 á Laugardalsvelli, í undankeppni HM karla í fótbolta.

Þrjár breytingar eru á byrjunarliði Íslands frá 2-0 tapinu gegn Rúmeníu á fimmtudagskvöld. Kári Árnason kemur inn í vörnina í stað Hjartar Hermannssonar, og Ísak Bergmann Jóhannesson og Mikael Anderson koma inn í stað Guðlaugs Victors Pálssonar og Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Jóhann er ekki í leikmannahópnum í dag.

Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson ná 100 landsleikja áfanganum í dag því þeir eru báðir áfram í byrjunarliðinu. Landsleikjametið á afmælisbarn dagsins, Rúnar Kristinsson, með 104 leiki.

Byrjunarlið Íslands í dag:

Mark: Rúnar Alex Rúnarsson.

Vörn: Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Brynjar Ingi Bjarnason, Guðmundur Þórarinsson.

Miðja: Andri Fannar Baldursson, Birkir Bjarnason, Ísak Bergmann Jóhannesson.

Sókn: Mikael Anderson, Viðar Örn Kjartansson, Albert Guðmundsson.

Hinn 18 ára gamli Ísak er þar með í byrjunarliði í mótsleik í fyrsta sinn með A-landsliðinu en þetta er hans sjötti A-landsleikur.

Þetta er fimmti leikur Íslands í undankeppninni sem verður því hálfnuð að honum loknum. Ísland hefur unnið einn leik til þessa, gegn Liechtenstein, en tapað hinum þremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×