Umfjöllun: Ís­land - Rúmenía 0-2 | Leiðin til Katar nánast ófær eftir tap fyrir Rúmenum

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Íslensku strákarnir í einni af ágætum sóknum sínum í kvöld þar sem vantaði að klára betur.
Íslensku strákarnir í einni af ágætum sóknum sínum í kvöld þar sem vantaði að klára betur. Vísir/Hulda Margrét

Ísland tapaði fyrir Rúmeníu, 0-2, í fjórða leik sínum í J-riðli undankeppni heimsmeistaramótsins 2022 á Laugardalsvelli í kvöld. Dennis Man og Nicolae Stanciu skoruðu mörk Rúmena í seinni hálfleik.

Íslendingar léku ágætlega í fyrri hálfleik en sá seinni var öllu slakari. Man kom Rúmenum yfir á 47. mínútu og eftir það reyndu Íslendingar af veikum mætti að jafna. Þeir færðu sig framar eftir því sem á seinni hálfleikinn leið, fyrir vikið fengu gestirnir tækifæri á skyndisóknum og ein þeirra skilaði marki á 83. mínútu þegar Stanciu skoraði.

Íslenska landsliðið hefur verið mikið til umræðu síðustu daga vegna mála sem tengjast fótbolta ekkert en eru samt miklu mikilvægari en hann. Leikurinn hefur því skiljanlega setið í aftursætinu og áhuginn á honum frekar takmarkaður.

Í aðdraganda leiksins talaði landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson um að úrslitin skiptu ekki jafn miklu máli og oftast áður en hann færi fram á væri að íslenska liðið stæði saman og legði sig allt fram. Og það var engin vöntun á því og frammistaðan í fyrri hálfleik var hin ágætasta. En í þeim seinni komu veikleikar íslenska liðsins bersýnilega í ljós. Og eftir að Rúmenar náðu forystunni lentu þeir sjaldan í vandræðum og voru sjálfir klókir að nýta sér glufurnar sem mynduðust í íslensku vörninni.

Úrslit kvöldsins voru slæm og möguleikarnir á að komast á HM í Katar, sem voru ekki miklir fyrir, eru svo gott sem úr sögunni núna. Ísland mætir Norður-Makedóníu á sunnudaginn og Þýskalandi á miðvikudaginn í seinni tveimur leikjunum í þessari landsleikjahrinu.

Birkir Bjarnason rétt missti af þessum bolta.Vísir/Hulda Margrét

Óvænt liðsval

Arnar Þór kom nokkuð á óvart með liðsvali sínu. Leikmennirnir sem stóðu sig vel í vináttulandsleikjunum í byrjun sumars, þeir Brynjar Ingi Bjarnason, Hjörtur Hermannsson og Guðmundur Þórarinsson, fengu traustið í kvöld og mynduðu varnarlínuna ásamt Birki Má Sævarssyni sem lék sinn 99. landsleik. 

Rúnar Alex Rúnarsson var í markinu, Andri Fannar Baldursson fékk tækifæri á miðjunni og Viðar Örn Kjartansson, sem var ekki í upprunanlega hópnum, var fremsti maður. Jóhann Berg Guðmundsson bar fyrirliðabandið í sínum áttugasta landsleik.

Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á í seinni hálfleiknum.Vísir/Hulda Margrét

Hættulegir á hægri kantinum

Eftir smá skjálfta í upphafi leiks þar sem Rúmenar voru í tvígang nálægt því að skora með skotum fyrir utan vítateig af löngu færi náði íslenska liðið góðum tökum á leiknum. Flestar af hættulegustu sóknum Íslands komu upp hægri kantinn þar sem Birkir Már og Jóhann Berg náðu vel saman. Vinstri kantmaður Rúmeníu, Deian Sorescu, hafði takmarkaðan áhuga á því að spila vörn og Birkir Már nýtti sér það vel. Valsmaðurinn 36 ára var óþreytandi og besti leikmaður Íslands í leiknum.

Rúmenar minntu reglulega á sig og fengu sannkallað dauðafæri á 23. mínútu þegar Sorescu slapp í gegn eftir slæm mistök Hjartar en missti boltann of langt frá sér og aftur fyrir. Þremur mínútum síðar komst Denis Alibac í góða stöðu inni á vítateig Íslands en Birkir Bjarnason komst fyrir skot hans.

Viðar Örn var hættulegur í fyrri hálfleik og á 15. mínútu átti hann skalla sem Florin Nita varði. Selfyssingurinn átti síðan annan skalla framhjá á 24. mínútu. Fimm mínútum síðar áttu Íslendingar svo þunga sókn. Andri Fannar skaut í höndina á leikmanni Rúmeníu en ekkert var dæmt og Birkir átti svo skot af stuttu færi sem Nita varði.

Íslendingar voru samt full hjálpsamir við Rúmena og á 43. mínútu tapaði Guðlaugur Victor Pálsson boltanum klaufalega en Brynjar Ingi og Rúnar Alex björguðu málunum. Staðan í hálfleik var markalaus.

Jóhann Berg Guðmundsson var með fyrirliðabandið í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Afleit byrjun á seinni hálfleik og fá færi

Seinni hálfleikurinn var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Rúmenar náðu forystunni. Stanciu átti greiða leið að vítateignum, fékk alltof mikinn tíma og átti fasta fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Man stakk sér fram fyrir Guðmund og skoraði auðveldlega.

Íslendingar brugðust ágætlega við markinu og settu Rúmena undir þónokkra pressu án þess að opna rúmensku vörnina að neinu ráði. Viðar Örn átti skalla á 53. mínútu og Birkir missti naumlega af boltanum.

En eftir þennan góða kafla dró úr sóknarþunga Íslands. Liðið skapaði fá hættuleg færi og skiptingarnar sem Arnar Þór gerði báru ekki tilætlaðan árangur. Rúmenar vörðust vel og fengu fleiri tækifæri á skyndisóknum þegar á seinni hálfleikinn leið. 

Besta færi Íslands í seinni hálfleik kom á 76. mínútu. Ísak Bergmann Jóhannesson átti þá fyrirgjöf, Albert Guðmundsson lét boltann fara, Birkir fékk hann við markteigslínuna en hitti ekki markið.

Þegar sjö mínútur voru eftir kom svo rothöggið. Eftir hornspyrnu Íslendinga geystust Rúmenar í skyndisókn. Stanciu slapp í gegnum fáliðaða vörn Íslands eftir sendingu frá Alexandru Maxim og skoraði örugglega framhjá Rúnari Alex. Eftir þetta var allur þróttur úr íslenska liðinu og Rúmenar héldu fengnum hlut af öryggi.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.