Daniel Wass kom heimamönnum yfir eftir 14 mínútur og rétt einni og hálfri mínútu síðar hafði Joachim Mæhle tvöfaldað forystu Dana. Staðan orðin 2-0 og þar við sat. Eftir leik ræddi fyrirliði Danmerkur, Simon Kjær, við fjölmiðla.
„Það var sérstakt að koma hingað aftur. Það er eitthvað sem við verðum að venjast eftir allt sem hefur gengið á hér. Ég er mjög ánægður með hversu vel við höfum farið af stað eftir Evrópumótið.“
„Að koma hingað undir venjulegum kringumstæðum er eitthvað sem maður þarf að melta og taka inn. Það er einstakt í hvert einasta skipti,“ bætti fyrirliðinn við.
Evrópumót Dana var viðburðarríkt en það hófst á því að Christian Eriksen, stjarna liðsins, fór í hjartastopp í fyrsta leik. Eriksen hefur náð sér eftir atvikið en það er enn alls óvíst hvort hann muni spila fótbolta aftur.
Leikmenn danska liðsins náðu að snúa bökum saman og komust alla leið í undanúrslit mótsins þar sem biðu lægri hlut gegn Englandi í framlengdum leik. Vonbrigðin frá því á Wembley hafa ekki elt liðið inn í undankeppni HM en liðið er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í F-riðli.