Fótbolti

Enn eitt risatilboð í Mbappé | Forráðamenn PSG svöruðu ekki í símann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé mun leika undir stjórn Mauricio Pochettino út leiktípina.
Kylian Mbappé mun leika undir stjórn Mauricio Pochettino út leiktípina. Mehdi Taamallah/NurPhoto via Getty Images

Franski framherjinn Kylian Mbappé verður áfram í herbúðum franska stórveldisins PSG, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Real Madrid að fá hann í sínar raðir. Madrídingar buðu 189 milljónir punda í leikmanninn í dag, en forráðamenn PSG svöruðu ekki í símann.

Tilboðið var lokatilraun Real Madrid til að fá þennan 22 ára sóknarmann, en það hefði gert hann að næst dýrasta leikmanni sögunnar. Liðsfélagi hans hjá PSG, Neymar, varð sá dýrasti í sögunni þegar að franska liðið keypti hann fyrir 198 milljónir punda.

Samningur Mbappé við PSG gildir til sumarsins 2022, en hann hefur hingað til neitað að skrifa undir nýjan samning við félagið. Hann gæti því farið frítt frá félaginu næsta sumar.

Það verður að teljast nokkuð líklegt að Mbappé gangi til liðs við Madrídinga næsta sumar, en hann hefur sjálfur gefið það út að það hafi lengi verið draumur hans að spila fyrir Real Madrid.

Mbappé hefur spilað 174 leiki fyrir PSG þar sem hann hefur skorað 133 mörk. Hann á einnig að baki 48 leiki fyrir franska landsliðið þar sem hann hefur skorað 17 mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.