Erlent

WHO ferjar nauð­syn­legar heil­brigðis­vörur til Afgan­istan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tekist hefur að opna lofbrú til Afganistan til að ferja þangað heilbrigðisvörur.
Tekist hefur að opna lofbrú til Afganistan til að ferja þangað heilbrigðisvörur. Getty/Rafael Henrique

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur opnað loftbrú til Afganistan til að ferja þangað nauðsynlegar heilbrigðisvörur. Fyrsta flugvélin, með byrgðir frá WHO innanborðs, lenti í Afganistan í morgun.

Þetta er fyrsta sending heilbrigðisvara sem kemur til Afganistan frá því að Talibanar tóku þar völd fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Ástandið hefur farið síversnandi frá því að Talibanar tóku völd og var til að mynda gerð eldflaugaárás á Kabúl í morgun. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

„Eftir margra daga vinnu get ég glaður sagt að okkur hefur tekist að finna lausn á málinu og munum geta flutt nauðsynlegar byrgðir heilbrigðisvara til heilbrigðisstofnana í Afganistan. Við munum þá reyna að tryggja að heilbrigðisþjónusta geti haldið áfram,“ sagði Ahmed Al Mandhari, yfirmaður WHO í austurhluta Miðjarðarhafssvæðisins, í yfirlýsingu.

Stofnunin varaði við því á föstudag að heilbrigðisvörur væru af skornum skammti í Afganistan og nauðsynlegt væri að opna loftbrú að borginni Mazar-i-Sharif, í norðurhluta Afganistan, með hjálp pakistanskra stjórnvalda.

Vörurnar sem fluttar voru til Afganistan í dag eru nauðsynjavörur sem nýtast munu í almenna heilbrigðisþjónustu fyrir 200.000 manns auk þess að hægt verður að framkvæma skurðaðgerðir á 3.500 manns og veita 6.500 bráðaþjónustu.

Vörurnar verða fluttar á 40 heilbrigðisstofnanir í 29 héruðum um allt Afganistan.


Tengdar fréttir

Draga heilindi og yfirlýsingar talíbana í efa

Bresk stjórnvöld draga það í efa að talíbanar muni standa við yfirlýsingar þess efnis að allir sem eiga rétt á því komist frá Afganistan heilir á húfi. Breskir hermenn hafa snúið aftur heim en Bretar hyggjast áfram aðstoða fólk við að komast burt.

Eldflaugum skotið á Kabúl

Eldflaugum var skotið á hverfi í grennd við flugvöllinn í Kabúl í Afganistan í morgun. AP fréttastofan greinir frá þessu en segir enn óljóst hver hafi verið þar að verki.

Barn lést þegar eldflaug var skotið við flugvöllinn í Kabúl

Lögreglustjóri í Afganistan fullyrðir að barn hafi látist þegar eldflaug var skotið á hús í hverfi norðvestur af flugvellinum í Kabúl í dag. Talibanar segja að loftárás Bandaríkjahers hafi stöðvað sjálfsmorðsprengjutilræðismann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×