Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari í Reykjavík. Fallist var á kröfu héraðssaksóknara af héraðsdómi Reykjavíkur en gæsluvarðhaldið er á grundvelli rannsóknarhagsmuna og til að verja aðra fyrir árásum sakbornings.
Rannsókn málsins lýtur meðal annars að tilraun til manndráps, valdstjórnarbrotum, líkamsárás, hótunum og almannahættubrotum auk brota gegn vopnalögum og barnaverndarlagabrotum.
Maðurinn var skotinn í kviðinn af lögreglu á fimmtudagskvöld og gekkst undir aðgerð á Landspítala. Maðurinn er nú á batavegi og hefur verið fluttur af gjörgæslu á almenna deild og sætir gæslu á sjúkrahúsi.
Rannsókn málsins miðar vel, samkvæmt upplýsingum frá varahéraðssaksóknara, en embættið hefur jafnframt til rannsóknar þann þátt málsins sem varðar beitingu lögreglu á skotvopni gegn manninum.