Innlent

Mætti heim til barnsföður kærustu sinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi við Dalsel um hádegisbil.
Frá vettvangi við Dalsel um hádegisbil. Guðmundur Hjalti Stefánsson

Karlmaður á fimmtugsaldri var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík frá Egilsstöðum í gær eftir að lögregla skaut hann við Dalsel í útjaðri bæjarins í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum fréttastofu ætlaði hann að eiga samskipti við barnsföður kærustu sinnar sem býr í götunni og mætti þangað vopnaður.

Fram kemur í tilkynningu í lögreglu á Austurlandi að tilkynning um vopnaðan mann sem hafði uppi hótanir um að beita vopninu hafi borist um klukkan tíu í gærkvöldi. Hann hafi þá verið í íbúðarhúsi þaðan sem skothvellir heyrðust. Ekki hafi þá verið vitað hvort aðrir væru í húsinu. Eftir um klukkustund hafi maðurinn komið vopnaður út, skotið að lögreglu - sem þá hafi skotið hann. 

Maðurinn hafi fengið aðhlynningu hjá lækni en svo verið fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan hans en samkvæmt upplýsingum fréttastofu særðist enginn annar í tengslum við málið. 

Lögregla á Austurlandi verst allra fregna af málinu og vísar á héraðssaksóknara, sem nú er með málið á sínu borði. Lið frá embættinu og tæknideild lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var sent á vettvang strax í gærkvöldi og er við störf á vettvangi í Dalseli.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn á fimmtugsaldri og búsettur í Múlaþingi, en þó ekki á Egilsstöðum. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafi maðurinn komið vopnaður að húsinu í Dalseli, þar sem barnsfaðir kærustu hans er búsettur, í gærkvöldi. Atburðarásin er nokkuð óljós en skothvellur á vettvangi náðist á myndband, sem birt var á samfélagsmiðlinum TikTok og sjá má hér fyrir neðan.

Þröstur Jónsson, íbúi að Dalseli, segist hafa heyrt smelli fyrir utan hús sitt í gærkvöldi.

„Það stendur einhver maður á bak við bíl og er að bjástra og eins og maður gerir i sveitinni gengur maður að viðkomandi og fer að spjalla við hann. En ég var kominn út á miðja götu og það var eitthvað sem kippti við mér og sagði mér að hunskast inn í hús aftur. Sem ég gerði, sem betur fer.“

Þröstur Jónsson, íbúi í Dalseli.

Þröstur segist hafa áttað sig á því síðar að þarna hafi maðurinn verið að hlaða haglabyssu. Síðar hafi gatan fyllst af lögreglumönnum og Þröstur svo séð að hús hans sé allt útsett skotgötum eftir manninn.

„Ég sé árásarmanninn í rauninni aldrei fyrr en hann liggur í götunni en það fer þannig að það er lögreglumaður sem ég kannast ágætlega við. Hann stendur þarna, beinir byssu og biður viðkomandi að leggja niður vopn. Hann ítrekar það þrisvar og setur sig örugglega í mikla hættu þarna. Fer fram á alveg síðasta séns með að viðkomandi leggi niður vopn. Svo ríður bara skot af og ég sé að það liggur maður þarna í götunni í blóði sínu,“ segir Þröstur. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.