Fótbolti

Gunn­hildur Yrsa spilaði allan leikinn í naumum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnhildur Yrsa og stöllur hennar unnu góðan sigur í nótt.
Gunnhildur Yrsa og stöllur hennar unnu góðan sigur í nótt. @ORLPride

Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék allan leikinn á miðju Orlando Pride er liðið vann nauman 1-0 sigur á NJ/NY Gotham í NWSL-deildinni í fótbolta í Bandaríkjunum.

Gunnhildur Yrsa hóf leikinn sem annar af djúpum miðjumönnum Orlando Pride og sá til þess að leikmenn Gotham komust hvorki lönd né strönd. Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Erika Tymrak og gestunum frá Orlando yfir snemma leiks í síðari hálfleik.

Markið var einkar glæsilegt þó Tymrak hafi eflaust ætlað að gefa fyrir. Mögulega fyrirgjöf hennar endaði sem hið fullkomna skot sem söng í markvinklinum fjær og staðan orðin 1-0 Orlando í vil.

Reyndist það eina mark leiksins og sigurinn því gestanna, lokatölur 0-1. Orlando Pride er nú í 4. sæti deildarinnar með 24 stig að loknum 17 leikjum.

Andrea Rún Snæfeld Hauksdóttir var ekki í leikmannahóp Houston Dash sem vann 1-0 sigur á Racing Louisville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×