Fótbolti

Jafnt hjá Birki og félögum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mario Balotelli, liðsfélagi Birkis, í baráttunni í leik kvöldsins.
Mario Balotelli, liðsfélagi Birkis, í baráttunni í leik kvöldsins. Eren Bozkurt/Anadolu Agency via Getty Images

Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason spilaði síðasta korterið fyrir lið sitt Adana Demirspor sem gerði 1-1 jafntefli við Konyaspor í tyrknesku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Birkir var að spila sinn annan leik fyrir tyrkneska liðið en hann spilaði 20 mínútur í 1-1 jafntefli við Kayserispor síðustu helgi.

Sömu úrslit urðu gegn Konyaspor í kvöld en Birkir kom inn á sem varamaður fyrir Younes Belhanda á 75. mínútu leiksins. Þá var Demirspor 1-0 yfir eftir mark Britt Assombalonga á 59. mínútu.

Abdulkerim Bardakci jafnaði hins vegar fyrir Konyaspor á 83. mínútu og annan leikinn í röð gera Birkir og félagar 1-1 jafntefli. Liðið er með tvö stig eftir þrjá leiki í tyrknesku deildinni.

Demirspor eru nýliðar í úrvalsdeildinni í Tyrklandi eftir að hafa unnið B-deildina í fyrra. Mikið hefur verið lagt í liðið en markaskorari kvöldsins, Assombalonga var keyptur frá Middlesbrough á Englandi, Belhanda kom frá Galatasaray og Mario Balotelli var fenginn til liðsins frá Monza á Ítalíu.

Einnig var samið við svissneska Tyrkjann Gökhan Inler, sem er fyrirliði, Norðmanninn Jonas Svensson kom frá AZ Alkmaar og þá var Benjamin Stambouli, fyrrum leikmaður Tottenham, fenginn frá Schalke.

Félagið er nánast með nýtt byrjunarlið í höndunum og virðast menn enn vera að spila sig saman. Áhugavert verður að fylgjast með Birki og félögum í vetur en næsti leikur liðsins er við Karagumruk eftir landsleikjahléið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×