Innlent

Smit komið upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru sem segist hafa snúið við blaðinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Togarinn Páll Pálsson ÍS-102 er nefndur í höfuðið á fyrsta stjórnarformanni fyrirtæksins.
Togarinn Páll Pálsson ÍS-102 er nefndur í höfuðið á fyrsta stjórnarformanni fyrirtæksins. Hraðfrystihúsið Gunnvör

Skipverji á Páli Pálssyni ÍS greindist með Covid-19 í gær. Jákvæð niðurstaða fékkst úr hraðprófi og er nú beðið niðurstöðu úr PCR-prófi. Fimmtán manna áhöfn verður í sóttkví þar til hún liggur fyrir.

Einn úr áhöfninni var sendur í hraðpróf eftir að starfsmaður á skrifstofu Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út skipið, fékk jákvæða niðurstöðu. Hefur sú greining verið staðfest með PCR-prófi og innan við tíu starfsmenn sendir í sóttkví. 

Ákveðið var að loka skrifstofu fyrirtækisins í Hnífsdal í dag vegna þessa. Niðurstöðu úr PCR-prófi skipverjans er að vænta í dag.

„Við erum ekki komin með niðurstöðu úr þessu en vonum það besta. Það er allrar varúðar gætt,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar. Nú sé sennilega unnið að því að flytja sýnið til Reykjavíkur.

Hraðprófin reynst vel

Hraðfrystihúsið Gunnvör komst í fréttirnar í október þegar nær allir skipverjar um borð í togaranum Júlíusi Geirssyni greindust með Covid-19. Voru skipstjóri og stjórnendur fyrirtækisins harðlega gagnrýndir þegar greint var frá því að skipverjar hafi staðið vaktina í þrjár vikur um borð, þrátt fyrir mikil veikindi.

Einar Valur segir fyrirtækið nú hafa snúið við blaðinu og að áhafnir frystitogara séu sendar í hraðpróf fyrir hvern túr. Heilbrigðisstarfsmaður á vegum fyrirtækisins sjái um framkvæmdina og þetta séu fyrstu tilfellin sem komi upp meðal starfsmanna frá hópsýkingunni um borð í Júlíusi Geirmundssyni.

Þó er ekki venjan að skipverjar um borð í Páli Pálssyni og öðrum dagróðrabátum séu skimaðir áður en þeir fari í styttri ferðir. Áhöfn skipsins var snúið í land þegar starfsmaðurinn greindist á skrifstofunni þar sem talið var að einn skipverjinn væri útsettur. 

„Þessi hraðpróf geta hjálpað mikið og það hefur bara sannað sig,“ segir Einar Valur.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.