Danska B-deildarliðið HB Köge réð hinn 36 ára gamla Daniel Agger nokkuð óvænt sem þjálfara í apríl á þessu ári.
Agger lék á sínum tíma með Bröndby og danska landsliðinu en er hvað frægastur fyrir veru sína hjá Liverpool frá 2006 til 2014. Eftir það fór hann aftur til Bröndby en lagði skóna á hilluna tveimur árum síðar vegna vegna þrálátra meiðsla.
Rykið hefur nú verið dustað af skónum og þeir teknir af hillunni þar sem leikmannahópur HB Køge verður þynnri og þynnri með hverjum deginum.
„Hann sagði að ef staðan er virkilega slæm gæti hann komið inn af bekknum undir lok leikja og hjálpað til. Það er ástæðan fyrir að við skráðum hann í leikmannahóp liðsins,“ sagði Per Rud, framkvæmdastjóri félagsins.
HB Køge er sem stendur í 9. sæti dönsku B-deildarinnar með fjögur stig að loknum sex leikjum.