Erlent

Ferð Har­ris tafðist vegna gruns um „Havana-heil­kennið“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Harris er nú komin til Hanoi í Víetnam eftir nokkurra klukkustunda töf.
Harris er nú komin til Hanoi í Víetnam eftir nokkurra klukkustunda töf. Getty/Carlos Tischler

Ferð Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, til Víetnam var frestað um nokkra klukkutíma vegna gruns um að upp sé komið tilfelli í höfuðborg landsins af hinu dularfulla „Havana-heilkenni“.

Fyrstu tilfelli heilkennisins komu upp í sendiráði Bandaríkjanna í Havana á Kúbu árið 2016 og talið er að það orsakist af örbylgjugeislun.

Harris var stödd í Singapúr fyrr í dag og átti hún að fljúga til Hanoi, höfuðborgar Víetnam, síðdegis. Flugferðinni var hins vegar frestað þegar grunur kom upp um mögulegt tilfelli heilkennisins. Ekki liggur fyrir hver það er sem talið er að hrjáist af heilkenninu. Fréttastofa CBS greinir frá.

Samkvæmt fréttinni líkist tilfellið í Hanoi verulega þeim sem komu upp í Havana á sínum tíma og meðal starfsmanna Bandaríska sendiráðsins í Austurríki, sem fengu heilkennið fyrr á þessu ári.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sagði í yfirlýsingu í dag að eftir ítarlega skoðun hafi verið ákveðið að Harris og fylgdarmenn hennar skyldu halda til Hanoi, þar sem hún lenti fyrir einhverju síðan.

Samkvæmt heimildamanni CBS í ráðuneytinu var opinber starfsmaður í Hanoi fluttur þaðan með sjúkraflugi um helgina. Þetta sé þá ekki fyrsta tilfelli heilkennisins sem komið hafi upp í Víetnam.

Síðan greint var frá fyrstu tilfellunum af heilkenninu árið 2016 hefur fjöldi tilfella verið skráður, þar á meðal í Kína og síðast í Austurríki. Hundruð diplómata, njósnara og annarra opinberra starfsmanna Bandaríkjanna hafa hrjáðst af heilkenninu, en helstu einkenni þess eru heyrnartruflanir, alvarlegir höfuðverkir og ógleði.

Niðurstöður bandarískrar rannsóknar frá árinu 2019 bentu til þess að heilastarfsemi diplómatanna, sem fengu heilkennið í Kúbu árið 2016, væri óeðlileg.


Tengdar fréttir

Tvær mögulegar „örbylgjuárásir“ til skoðunar í Hvíta húsinu

Talsmenn Hvíta hússins segja tvö „óútskýrð heilbrigðistilvik“ til rannsóknar en greint hefur verið frá því að tveir embættismenn í Washinton hafi skyndilega upplifað einkenni á borð við þau sem þjáð hafa einstaklinga sem unnu í sendiráðinu á Kúbu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×