Erlent

Rann­saka möguleg til­felli „Havana-heil­kennis“ í Austur­ríki

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna er með málið til skoðunar.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna er með málið til skoðunar. Greg Mathieson/Mai/Getty

Bandarísk stjórnvöld rannsaka nú röð heilsufarstengdra atvika hjá erindrekum sínum í Vín, höfuðborg Austurríkis, og öðru starfsfólki á vegum utanríkisþjónustu Bandaríkjanna þar.

Yfir 20 starfsmenn hafa síðan í janúar lýst einkennum sem svipar um margt til einkenna „Havana-heilkennis,“ sem er dularfullur sjúkdómur í heila. Engar óyggjandi útskýringar hafa fundist á heilkenninu, en bandarískir vísindamenn segja margt benda til þess að örbylgjur sem beint er að fólki valdi því.

Heilkennið er kennt við Havana, höfuðborg Kúbu, vegna þess að starfsfólk á vegum utanríkisþjónustu Bandaríkjanna þar í landi fór margt að finna fyrir einkennum þess, svima, heyrnar- og jafnvægistapi, kvíða og heilaþoku, á árunum 2016 til 2017.

Bandaríkjastjórn sakaði kúbversk stjórnvöld í kjölfarið um að standa að „örbylgjuárásum“ á starfsfólk sitt. Stjórnvöld á Kúbu þvertóku fyrir allar slíkar ásakanir, en í kjölfar þeirra kastaðist enn frekar í kekki í sambandi ríkjanna tveggja, sem gekk ekki lipurlega fyrir sig áður en málið kom upp.

Rannsaka málið ofan í kjölinn

Fyrst var greint frá málinu í umfjöllun New Yorker, en utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðfest frásögn blaðsins og segist nú vera að rannsaka málið af miklum móð. Austurrísk stjórnvöld hyggjast vinna með Bandaríkjunum til að komast til botns í málinu.

Bandaríkin eru með ýmsa fulltrúa utanríkisþjónustu sinnar í Vín og nú standa yfir óformlegar viðræður milli Bandaríkjamanna og Írana um að setjast að samningaborðinu og ganga aftur að kjarnorkusamkomulagi ríkjanna frá 2015, sem Bandaríkin sögðu sig úr í stjórnartíð Donalds Trump, fyrrverandi forseta.

Tilfelli heilkennisins dularfulla hafa komið upp víðar en í Vín og Havana, en bandarísk stjórnvöld segja tilfelli í Vín fleiri en nokkurs staðar annars staðar, að Havana undanskilinni.


Tengdar fréttir

Tvær mögulegar „örbylgjuárásir“ til skoðunar í Hvíta húsinu

Talsmenn Hvíta hússins segja tvö „óútskýrð heilbrigðistilvik“ til rannsóknar en greint hefur verið frá því að tveir embættismenn í Washinton hafi skyndilega upplifað einkenni á borð við þau sem þjáð hafa einstaklinga sem unnu í sendiráðinu á Kúbu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.