Fótbolti

Magni orðaður við starf íþróttastjóra Start

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magni Fannberg gæti verið á förum til Start í Noregi.
Magni Fannberg gæti verið á förum til Start í Noregi. start magazine

Magni Fannberg er meðal þeirra sem er orðaður við stöðu íþróttastjóra hjá norska B-deildarliðinu Start. 

Frá þessu er greint í Fædrelandsvennen. Þar er haft eftir framkvæmdastjóra Start, Terje Marcussen, að félagið sé með 4-5 kandítata í starf íþróttastjóra. Magni er þar á meðal. Hann starfar sem þróunarstjóri hjá AIK í Svíþjóð.

Tveir mánuðir eru síðan Atle Roar Håland hætti sem íþróttastjóri. Síðan þá hafa Marcussen og Sindre Tjelmeland, þjálfari Start, séð um þau mál sem eru á könnu íþróttastjóra. Tjelmeland tók við þjálfarastarfinu hjá Start fyrr í sumar af Jóhannesi Harðarsyni.

Start vonast til að ráða í stöðu íþróttastjóra áður en ágúst er á enda. Magni vildi ekki tjá sig um áhuga Start við Fædrelandsvennen.

Magni starfaði áður hjá Brommapojkarna í Svíþjóð og Brann í Noregi en hann þekkir Tjelmeland frá tíma sínum í Bergen.

Þá þjálfaði Magni meistaraflokk karla hjá Fjarðabyggð og starfaði hjá Grindavík, Val og HK hér á landi.

Start er í 7. sæti norsku B-deildarinnar þegar tímabilið er hálfnað. Start er einu stigi frá sæti í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×