Fótbolti

Með för á hálsinum eftir stuðningsmenn Nice

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ljóst er að slagsmálin í leik Nice og Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í gær eiga eftir að draga dilk á eftir sér.
Ljóst er að slagsmálin í leik Nice og Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í gær eiga eftir að draga dilk á eftir sér. getty/John Berry

Upp úr sauð þegar Nice og Marseille áttust við í frönsku úrvalsdeildinni í gær. Átök brutust út á milli leikmanna og stuðningsmanna eftir að flösku var kastað í Dimitri Payet.

Franskir saksóknarar hafa hafið rannsókn á átökunum í Hreiðrinu í Nice en enginn hefur enn verið handtekinn.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka kastaði stuðningsmaður Nice vatnsflösku í bakið á Payet. Hann tók flöskuna upp og kastaði henni upp í stúku. Og þá varð fjandinn laus.

Slagsmál brutust út og menn létu hnefana tala. Jorge Sampaoli, knattspyrnustjóra Marseille, var sérstaklega heitt í hamsi og halda þurfti aftur að honum.

Tveir leikmenn Marseille meiddust í átökum við stuðningsmenn Nice, þeir Luan Peres og Matteo Guendouzi. Þeir voru báðir með för á hálsinum eftir átökin eins og sjá má hér fyrir neðan. Payet var einnig með far á bakinu eftir flöskuna sem var kastað í hann.

Stöðva þurfti leikinn vegna slagsmálanna. Þegar hefja átti hann að nýju mættu leikmenn Marseille ekki út á völlinn þar sem þeir óttuðust um öryggi sitt. 

Nice var dæmdur 3-0 sigur samkvæmt reglum frönsku úrvalsdeildarinnar en Marseille mun líklega áfrýja þeirri niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×