Fótbolti

Leik Nice og Marseille frestað eftir að Payet kastaði flösku upp í stúku

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Nice voru ekki sáttir og réðust inn á völlinn.
Stuðningsmenn Nice voru ekki sáttir og réðust inn á völlinn. John Berry/Getty Images

Það var allt á suðupunkti þegar að Nice tók á móti Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Hætta þurfti leik þegar að stuðningsmenn ruddust inn á völlinn eftir að Dimitri Payet, leikmaður Marseille, fékk flösku í bakið og kastaði henni aftur upp í stúku.

Kasper Dolberg hafði komið heimamönnum í Nice yfir á 49.mínútu eftir stoðsendingu frá Jordan Lotomba.

Á 74. mínútu fengu gestirnir hornspyrnu. Payet var að búa sig undir að taka spyrnuna þegar að hann fékk vatnsflösku fljúgandi úr áhorfendastúkunni í bakið. Hann brást illa við og kastaði flöskunni til baka upp í stúku, í átt að stuðningsmönnum Nice.

Þetta fór ekki vel í stuðningsmennina sem réðust inn á völlinn. Alvaro Gonzalez og Matteo Guendouzi hlupu í átt að stuðningsmönnunum og Alvaro þrumaði bolta upp í stúku. Dante, fyrirliði Nice, reyndi að róa þá sem voru komnir inn á völlinn.

Ekki var annað í stöðunni en að stöðva leikinn en þetta furðulega atvik má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×