Umræddir árgangar munu að óbreyttu tímabundið stunda nám í húsnæði íþróttafélagsins Víkings í Fossvogi, vegna myglunnar í Fossvogsskóla. Nokkuð sem foreldrum líst ekki á.
Mygluskemmdir hafa haft áhrif á skólastarfið í Fossvogsskóla síðustu ár. Rakaskemmdir eru enn til staðar í hluta bygginga skólans og þá fannst asbest í gluggakistum í byggingunum Vesturlandi og Meginlandi.

Dómgreindarleysi og „fullkomlega óboðlegt“
Í yfirlýsingu Foreldrafélagsins segir að skólayfirvöld í Reykjavík hafa ákveðið að hola minnst 120 börnum í kjallara og anddyri íþróttahúss Víkings. Sé húsnæðið fullkomlega óboðlegt sem kennsluhúsnæði og lýsi valið dómgreindarleysi skólayfirvalda.
„Við skorum á borgaryfirvöld að bregðast við og finna án tafar viðeigandi og heilsusamlegt húsnæði fyrir þessi 7, 8 og 9 ára gömlu börn og kennara þeirra. Ekki má fórna einum einasta skóladegi fyrir vandræðagang og vanhöld borgaryfirvalda í málinu.“
Foreldrafélagið lýsir ennfremur furðu sinni á seinagangi yfirvalda og úrræðaleysi þessa stærsta sveitarfélags landsins, þegar ljóst hafi verið fyrir mánuði síðan að færanlegar kennslustofur yrðu ekki tilbúnar í tæka tíð.
Borgaryfirvöld að misbjóða umbjóðendum sínum
Þá segir að börn og starfsfólk Fossvogsskóla hafi verið á vergangi meira og minna í tæp þrjú ár og stærstan hluta þess tíma vegna aðgerðarleysis borgaryfirvalda.
„Starfsfólk og foreldrar hafa sýnt vanmætti yfirvalda langlundargeð, langt umfram það sem til má ætlast. Enn höggva borgaryfirvöld í sama knérunn og misbjóða umbjóðendum sínum. Kennarar og starfsfólk sem leitað hafa til okkar eru uppgefin og raunveruleg hætta er á að fleiri reynslumiklir starfsmenn yfirgefi skólann en gerðu síðastliðið vor. Foreldrar vilja stöðugleika og námsfrið fyrir börnin og sumir hverjir eru að leita hófanna í öðrum skólum af þeim sökum.
Jafnframt lýsir stjórn vonbrigðum með samskiptaleysi við foreldra og starfsfólk. Líkt og lög kveða á um starfar skólaráð við Fossvogsskóla og í því eiga foreldrar og starfsfólk fulltrúa. Lögboðið hlutverk skólaráðs felst m.a. í að vera umsagnaraðili um meiriháttar breytingar á skólastarfi og vaka yfir heilsu og vellíðan nemenda í hvívetna. Skólaráð hefur ekki verið virkjað á neinum tímapunkti í aðdraganda skólabyrjunar, þrátt fyrir augljósa þörf. Fulltrúar foreldra og starfsfólks frétta af málefnum skólans í gegnum fjölmiðla og klórþvegnar fréttatilkynningar skólayfirvalda og upplýsingafulltrúa borgarinnar. Samstarf við skólasamfélagið er hverfandi nú líkt og oft áður, þrátt fyrir loforð um bót og betrun úr ræðustóli borgarstjórnar,“ segir í yfirlýsingunni.
Skólastarf á tveimur stöðum
Skólastarf Fossvogsskóla mun fara fram á tveimur stöðum í vetur; annars vegar í Fossvogi í færanlegum kennslustofum og í byggingunni Útgarði og hins vegar í Korpuskóla. Bráðabirgðaskúr sem átti að taka á móti yngsta skólastiginu í Fossvogi er þó ekki tilbúinn og því munu krakkarnir í 1. til 4. bekk fá kennslu í Víkinni, félagsheimili Víkings, þangað til.
Krakkarnir fá því tvö rými á neðri hæð Víkinnar; annars vegar tengibygginguna, sem eitt foreldri lýsti í gær sem „skítugum og mjög óvistlegum klósettgangi“ og má sjá á myndinni hér ofar í fréttinni og hins vegar Berserkjasalinn svokallaða.
Börn í 2. og 3. bekk eiga að vera í tengibyggingunni, eða klósettganginum, en þau eru um 90 talsins. Um er að ræða gang þar sem stuðningsmenn kaupa miða og veitingar á íþróttaleikjum en af ganginum ganga þeir inn í salernisaðstöðuna.