Tillaga þess efnis var samþykkt í borgarráði í dag en umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir á húsnæði Fossvogsskóla vegna raka- og mygluvanda.
Tillagan sem samþykkt var í borgarráði í dag gerir ráð fyrir uppsetningu tíu kennslueininga á skólalóð Fossvogsskóla og að þar og í húsnæði Frístundar í Útlandi muni fara fram kennsla fyrir börn í fyrstu til fjórðu bekkjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.
Borgin gaf út í maí að engin skólastarfsemi færi fram í Fossvogsskóla á næsta skólaári. Nýleg úttekt verkfræðistofunnar Eflu leiddi í ljós að ekki hafi tekist að koma að fullu í veg fyrir rakaskemmdir í húsnæði skólans.
Skólastarfið var flutt í Korpuskóla í Grafarvogi í mars en ekki vildi betur til en svo að rakaskemmdir og mygla fundust einnig þar.
Töldu óásættanlegt að nemendur yrðu ekki í sínu hverfi
Í yfirlýsingu frá Samtökum foreldra grunnskólabarna í Reykjavík (SAMFOK) sem var gefin út í júní kom fram að það væri ekki lausn til lengdar að aka nemendum Fossvogsskóla í Korpuskóla í Grafarvogi á hverjum degi.
Það hafi verið hugsað sem skammtímalausn og sé „algjörlega óásættanlegt“ sem lausn fyrir næsta eða næstu skólaár.
Fram kemur í tilkynningu frá borginni að samræður séu framundan við nágranna vegna breytinga á deiliskipulagi í tengslum við tímabundna uppsetningu einingahúsa fyrir kennslu á skólalóð Fossvogsskóla.