Innlent

Reykja­lundur tekur við sjúk­lingum frá Land­­spítala sem þurfa sólar­hrings­­þjónustu

Atli Ísleifsson skrifar
Samið hefur verið um tímabundna breytingu á aðalsamningi um þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi.
Samið hefur verið um tímabundna breytingu á aðalsamningi um þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi. Vísir/Egill

Samið hefur verið um að deild á Reykjalundi með tólf til fjórtán rúmum verði nýtt til fyrir sjúklinga sem munu flytjast beint frá Landspítala og fyrirsjáanlegt sé að þurfi innlögn í sólarhringsþjónustu í allt að sex vikur. Er samkomulagið gert til að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er á Landspítala vegna heimsfaraldursins.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Reykjalundi. Þar segir að gengið hafi verið frá samkomulagi milli Reykjalundar og Sjúkratrygginga Íslands um tímabundna breytingu á aðalsamningi um þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi.

„Breytingarnar eru gerðar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna Covid heimsfaraldursins og tengjast sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarði. Miðgarður er deild með 12-14 rúm fyrir einstaklinga sem þurfa hjúkrun allan sólarhringinn samhliða þverfaglegri endurhæfingu. Deildin verður nú nýtt fyrir sjúklinga sem flytjast beint frá Landspítala og fyrirsjáanlegt er að þurfi innlögn í sólarhringsþjónustu í allt að 6 vikur. Ef Landspítali nýtir ekki þessa heimild nýtir Reykjalundur lausu rýmin í samráði við Landspítalann. Samkomulagið tekur strax gildi og gildir til 28. febrúar 2022, þó með starfshléi yfir jól og áramót,“ segir í tilkynningunni.

Ætlað að auðvelda útskrift

Markmið samningsins er sagt vera að auðvelda útskrift af Landspítala í tengslum við Covid faraldurinn. Sérstök innlagnarnefnd, skipuð aðilum frá Reykjalundi og Landspítala, muni sjá um inntöku sjúklinga á Miðgarð á Reykjalundi í samræmi við verklagsreglur þar um.

„Vegna þessa dregur tímabundið eitthvað úr hefðbundnum innlögnum meðferðarteyma Reykjalundar inn á Miðgarð. Það mun þó vonandi hafa lágmarksáhrif þar sem innlagnir undanfarið hafa verið takmarkaðar meðal annars vegna Covid-ástandsins. Að öðru leiti ætti þetta aðeins að valda lágmarkstruflun á annarri hefðbundinni starfsemi Reykjalundar,“ segir í tilkynningunni.

Greint hefur verið frá því að viðræður standi nú yfir á milli Landspítala og starfsmannaleiga erlendis vegna vöntunar á sérhæfðum gjörgæsluhjúkrunarfræðingum. Sömuleiðis hafa heilbrigðisstarfsmenn frá Klíníkinni í Ármúla verið sendir á Landspítalann til bregðast við mönnunarvandanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×