Innlent

Telja skjálftana tengjast niður­dælingu jarð­hita­vatns

Atli Ísleifsson skrifar
Stærsti skjálftinn í gærkvöldi mældist 3,1 að stærð.
Stærsti skjálftinn í gærkvöldi mældist 3,1 að stærð. Vísir/Vilhelm

Vísindafólk Orku náttúrunnar telur líklegt að röð jarðskjálfta við Húsmúla, vestan undir Hengli, frá því um tíuleytið í gærkvöldi tengist niðurrennsli jarðhitavatns frá Hellisheiðarvirkjun.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Orku náttúrunnar, en skjálfti 3,1 að stærð mældist skömmu fyrir klukkan 23 í gærkvöldi. Nokkrir eftirskjálftar mældust í kjölfarið, en allir voru þeir undir tveimur að stærð.

Í tilkynningunni segir að jarðhitavatni sem nýtt er í Hellisheiðarvirkjun hafi síðasta áratuginn verið dælt niður í jörðina aftur eftir að orkan í því hafi verið nýtt í virkjuninni til vinnslu á rafmagni og heitu vatni fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.

„Orka náttúrunnar rekur jarðskjálftamælanet á vinnslusvæðinu til að fylgjast náið með skjálftavirkni. Skjálftarnir hafa engin áhrif haft á rekstur virkjunarinnar.

Orkuvinnsla á Hengilssvæðinu á sér um 30 ára sögu og mikið magn jarðhitavökva er tekið upp úr jarðhitakerfinu og dælt aftur niður eftir nýtingu þess í virkjunum. Ástæða þess að vatninu er dælt niður í jörðina aftur er að það eykur sjálfbærni jarðhitanýtingarinnar og dregur úr umhverfisáhrifum en það er einnig skilyrði í nýtingarleyfi Orkustofnunar.

Dæmi eru um að þegar breytingar hafa verið gerðar á niðurdælingu hafi það valdið smáskjálftavirkni á svæðinu. Engar slíkar breytingar voru í gangi þegar skjálftarnir hófust í gærkvöldi. Engu að síður telur vísindafólk Orku náttúrunnar að skjálftarnir tengist þeim spennubreytingum sem langvarandi niðurdæling veldur og fylgjast því grannt með framvindunni,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Skjálfti við Hellisheiðarvirkjun

Jarðskjálfti, 3,1 að stærð varð í kvöld rétt fyrir klukkan ellefu rétt tæpa þrjá kílómetra norður af Hellisheiðarvirkjun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.