Innlent

Tuttugu vist­­menn á Vernd komnir í sótt­varna­hús eftir að tveir greindust

Eiður Þór Árnason skrifar
Seinna tilfellið greindist við skimun vistmanna og starfsmanna.
Seinna tilfellið greindist við skimun vistmanna og starfsmanna. Vernd

Tveir vistmenn á áfangaheimilinu Vernd greindust með Covid-19 um helgina. Þeir voru í kjölfarið fluttir á sóttvarnahús auk átján annarra vistmanna sem komnir eru í sóttkví. Starfsfólk Verndar er jafnframt komið í heimasóttkví. 

Áfangaheimilið stendur nú autt en framundan eru allsherjarþrif og sótthreinsun, að sögn framkvæmdastjóra. Ráðgert er að eðlileg starfsemi hefjist þar á ný eftir að búið er að skima hópinn í annað sinn. RÚV greindi fyrst frá.

„Sú ákvörðun var tekin eftir mikla skoðun að eina leiðin í þessu væri að fólk yrði flutt á sóttvarnahótel til að verjast frekari smitum,“ segir Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar en hann var eini starfsmaðurinn sem þurfti ekki að fara í sóttkví.

Með undanþágu frá reglugerð

Vistmennirnir dvelja nú í sóttvarnahúsi á undanþágu frá ákvæði í nýlegri reglugerð þar sem áhersla er lögð á að nýta húsin fyrst og fremst fyrir fólk sem þarf á einangrun að halda.

Þetta er í fyrsta sinn sem kórónuveiran lætur á sér kræla inn á Vernd en ekki er vitað hvort tilfellin tvö tengist. Þráinn segir að lítill samgangur sé milli vistmanna og vel gætt að sóttvörnum í sameiginlegum rýmum. 

Hann bendir á að vistmönnum sé heimilt að sækja vinnu og skóla yfir daginn og því ekki ólíklegt að einstaklingarnir hafi smitast út í samfélaginu.

„Sem betur fer eru ekki fleiri smitaðir því þetta er fljótt að breiðast út í svona húsnæði og getur orðið að fjöldasmiti. Þar þökkum við auðvitað sóttvörnum okkar.“

„Það var auðvitað viðbúið að eitthvað svona gæti gerst en maður sá kannski ekki alveg fyrir sér að það myndi enda með þessum hætti. Eins og við þekkjum flest þá er ekki auðvelt að glíma við þetta og ekki auðvelt að leysa stundum heldur.“


Tengdar fréttir

Breyta reglu­gerð til að létta á sótt­varna­húsum

Heilbrigðisráðuneytið hefur gert breytingu á reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamærin vegna kórónuveirunnar. Með breytingunni verður aðgengi að sóttvarnarhúsum takmarkað og áhersla lögð á að nýta húsin fyrst og fremst fyrir fólk sem þarf á einangrun að halda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×