Innlent

Vinnuveitendur geti sagt upp starfsfólki sem hafnar bólusetningu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Atvinnurekendur hafa víðtækar heimildir til að segja starfsfólki upp.
Atvinnurekendur hafa víðtækar heimildir til að segja starfsfólki upp. Vísir/Vilhelm

Vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði geta ekki skyldað starfsfólk til þess að undirgangast bólusetningu. Þeir geta þó ákveðið að segja upp starfsfólki sem hafnar bólusetningu.

Þetta er mat Láru V. Júlíusdóttur, hæstaréttarlögmanns og sérfræðings í vinnurétti en hún ræddi réttindi starfsmanna og atvinnurekenda í tengslum við bólusetningar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Sagði hún að sterk rök þyrftu að vera fyrir hendi til að skylda starfsmenn til að fara í bólusetningu, enda væru þær ákveðið inngrip í líkama starfsmanna.

„Það verður ekki gert gegn vilja einstaklinganna, þetta verður ekki knúið fram gagnvart starfsfólki. Starfsfólk þarf ekki að undirgangast eitthvað sem það ekki kærir sig um,“ sagði Lára.

Atvinnurekendur hefðu hins vegar víðtækar heimildir samkvæmt íslenskum vinnurétti til að segja starfsfólki upp, og það næði einnig til starfsmanna sem hafnað hafa bólusetningu.

„Hins vegar má líta á málið frá því sjónarhorni hvort atvinnurekandi geti óskað eftir því að starfsmenn hafi farið í bólusetningu áður en þeir sinna einhverjum tilteknum verkum. Ef þeir hafna því þá getur atvinnurekenda þess vegna sagt þessum starfsmönnum upp eða sent þá heim. Hann getur ekki notað þá og bara samkvæmt íslenskum vinnurétti þá hefur atvinnurekandi mjög frjálsar hendur eða víðtækar heimildir til að segja starfsfólki upp og hann myndi þá ekki ráða annað fólk í vinnu en þá sem hafa undirgengist bóluetningu,“ sagði Lára.

Þá er starfsfólk kannski komið í erfiða stöðu, annað hvort ferðu í bólusetningu og heldur vinnunni eða missir vinnuna?

„Maður verður að gera ráð fyrir því að það séu þá þær aðstæður uppi að atvinnurekandi telji sig knúinn til að grípa til slíkra ráðstafana. En eins og ég segi og vísa aftur til reglna hér á landi þá á almennum vinnumarkaði þurfa atvinnurekendur ekki að færa nein sterk rök fyrir því að segja starfsmanni upp sem þeir vilja ekki hafa í vinnu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.