Fótbolti

KSÍ getur ekki stað­fest fyrir­komu­lag miða­sölu á lands­leikjum haustsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna marki gegn Írlandi á Laugardalsvelli í sumar. Óvíst er hversu margir geta mætt á leiki liðsins í haust.
Íslensku stelpurnar fagna marki gegn Írlandi á Laugardalsvelli í sumar. Óvíst er hversu margir geta mætt á leiki liðsins í haust. Vísir/Hulda Margrét

A-landslið karla og kvenna eiga bæði leiki á Laugardalsvelli nú í haust. Vegna samkomutakmarkana getur Knattspyrnusamband Íslands ekki enn staðfest hvernig miðasölu á leikjunum verður háttað.

„Vegna fjölda fyrirspurna vill KSÍ upplýsa að vegna óvissu um samkomutakmarkanir getur KSÍ enn sem komið er ekki staðfest fyrirkomulag miðasölu á A-landsleiki haustsins (kvenna og karla). KSÍ mun bíða með ákvörðun um miðasölu þar til skýrist hvaða reglur muni gilda í september,“ segir í tilkynningu KSÍ um málið.

A-landslið karla mætir Rúmeníu á Laugardalsvelli 2. september næstkomandi. Þann 5. september fer leikur Íslands og Norður-Makedóníu fram á vellinum. Að lokum koma Þjóðverjar í heimsókn þann 8. september.

Ísland er sem stendur í 5. sæti af sex þjóðum í undankeppni HM 2022 sem fram fer í Katar með þrjú stig að loknum þremur leikjum. Ísland lá í valnum gegn Þýskalandi og Armeníu en vann góðan 4-1 útisigur á Liechtenstein.

A-landslið kvenna hefur undankeppni sína fyrir HM 2023 þann 21. september þegar Holland kemur í heimsókn. HM fer að þessu sinni fram í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

Þann 22. október kemur Tékkland í heimsókn og þann 26. október mætir Kýpur á Laugardalsvöll.

Ljóst er að staðan getur breyst hratt milli vikna og því er alls óvíst hversu marga miða KSÍ getur selt á leikina að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×