Íslenski boltinn

Meira en átta hundruð dagar síðan KR náði að vinna HK síðast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HK-ingurinn Birnir Snær Ingason lætur vaða í leik á móti KR.
HK-ingurinn Birnir Snær Ingason lætur vaða í leik á móti KR. Vísir/HAG

KR-ingar mæta í Kórinn í kvöld í sautjándu umferð Pepsi deildar karla sem er einn af fáum völlum sem KR-ingar hafa aldrei fagnað sigri í efstu deild karla.

Leikurinn í kvöld verður þriðji deildarleikur KR-liðsins í húsinu en liðin gerðu jafntefli þar í fyrra og KR steinlá á móti HK í Kórnum sumarið 2019.

HK þar svo sannarlega á stigunum að halda í kvöld enda í slæmum málum í fallsæti. HK-ingar hafa fengið stigin á móti KR liðinu undanfarin ár.

Af liðunum ellefu sem eru með KR í Pepsi Max deildinni í sumar þá hefur KR aðeins beðið lengur eftir sigri á móti einu liði og það er Stjarnan.

Það eru nú liðnir 819 dagar síðan að KR vann HK síðast í úrvalsdeildinni en það var 3-2 sigur á KR-vellinum 20. maí 2019. KR komst þá í 3-0 á fyrstu 55 mínútunum með mörkum frá Pálma Rafni Pálmasyni, Tobias Thomsen og Björgvini Stefánssyni.

HK skoraði tvö mörk á síðustu fimm mínútum leiksins og hefur síðan náð í átta stig í síðustu fjórum leikjum á móti KR. Tveir síðustu leikir liðanna hafa reyndar endað með jafntefli.

KR hefur aftur á móti beðið í 1121 dag eftir sigri á móti Stjörnunni sem kom í hús 22. júlí 2018.

Leikur HK og KR hefst klukkan 19.15 í kvöld og er sýndur beint á stod2.is.

Upphitun á Stöð 2 Sport fyrir leiki kvöldsins byrjar klukkan 18.30 en klukkan 19.15 verður leikur Fylkis og Víkings sýndur beint. Pepsi Max Stúkan er síðan strax á eftir þar sem allir leikir kvöldsins verða gerðir upp en likur Breiðabliks og ÍA er sýndur beint á stod2.is.

  • Dagar síðan KR fagnaði sigri á móti liðunum í Pepsi Max deildinni:
  • Stjarnan 1121 dagur
  • HK 819 dagar
  • Valur 429 dagar
  • Víkingur R. 319 dagar
  • Breiðablik 106 dagar
  • FH 86 dagar
  • ÍA 78 dagar
  • Leiknir R. 63 dagar
  • KA 42 dagar
  • Keflavík 35 dagar
  • Fylkir 21 dagur
  • -
  • Síðustu leikir KR og HK
  • 25. maí 2021: 1-1 jafntefli
  • 4. október 2020: 1-1 jafntefli
  • 20. júní 2020: HK vann 3-0
  • 11. ágúst 2019: HK vann 4-1
  • 20. maí 2019: KR vann 3-2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×