Innlent

Konurnar fái niðurstöður í þessari eða næstu viku

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigríður Dóra Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. vísir

Þær konur sem beðið hafa lengst eftir svörum vegna leghálsskimana eiga von á niðurstöðum í þessari viku eða þeirri næstu. Þetta segir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í morgun greindi Vísir frá því að þær konur sem beðið hafa lengst eftir svörum vegna leghálsskimunar hafa beðið í meira en fjóra mánuði en konur sem fóru í skimun í mars eiga enn eftir að fá niðurstöðu. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu segir að þó konurnar eigi eftir að fá svör sé búið að fara yfir sýni þeirra.

„Það er búið að forgangsraða og upplýsa konur um öll þau sýni þar sem voru einhver frávik. Það sem er verið að vinna í núna er að koma upplýsingum til þeirra kvenna þar sem voru mjög lítil frávik en það eru konur sem engu að síður eru að fara í eftirlit þannig þetta snýst um það hvort þær fái boðun eftir þrjú ár eða fimm ár,“ sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þær konur sem ekkert hafi heyrt geti verið rólegar.

„Þó við skiljum vissulega að það er erfitt að vera ekki búin að fá svar og við viljum ekki hafa þetta svona en við erum að vinna í úrbótum. Þessi sýni sem bíða eru í rauninni öll sýni sem búið er að meta að eru með mjög litlu fráviki þannig að það er ekkert brýnt í þessum sýnum og ekkert til að hafa áhyggjur af. En við þurfum að koma þessu öllu frá okkur.“

Það sem helst valdi töfum sé úrvinnslan hérlendis. Samhæfingarstöðin vilji veita konum nákvæm svör. Sigríður Dóra segir að í forgangi sé að gefa konum svör í þessari eða næstu viku.

„Það er eitthvað sem við skoðum í þessari viku. Þetta er forgangsatriði hjá okkur í þessari viku að koma þessu öllu út. Þetta snýst um að gera hlutina alveg rétt út af þessum breytingum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×