Erlent

Um­deilt fjöl­miðla­frum­varp sam­þykkt og stjórnin missir meiri­hlutann

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmælt var fyrir utan þinghúsið í Varsjá og víðar á þriðjudagskvöld.
Mótmælt var fyrir utan þinghúsið í Varsjá og víðar á þriðjudagskvöld. EPA

Neðri deild pólska þingsins samþykkti í gær umdeilt fjölmiðlafrumvarp sem stjórnarandstæðingar segja miða að því að múlbinda sjónvarpsstöð sem hefur verið gagnrýnin á störf stjórnar landsins.

Ríkisstjórn Póllands segir nýju lögin nauðsynleg til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar, sem hafi illt eitt í huga, komist yfir fjölmiðla landsins. Gagnrýnendur pólsku stjórnarinnar segja lögin hins vegar tilraun til að þrýsta á bandaríska Discovery að selja TVN, stærstu sjónvarpsstöð landsins.

BBC segir frá því að nýju fjölmiðlalögin gætu haft neikvæð áhrif á milliríkjasamskipti Póllands og Bandaríkjanna og auka enn frekar á áhyggjur Evrópusambandsins af fjölmiðlafrelsi í landinu.

Þúsundir mótmæltu

Þúsundir manna flykktust út á götur Póllands á þriðjudaginn til að mótmæla fyrirhuguðum lögum, meðal annars fyrir utan þinghúsið í Varsjá, en einnig í borgunum Krakow, Wroclaw, Poznan, Lublin og Szczecin.

Leiðtogar pólsku stjórnarinnar hafa talað fyrir því að nýjum reglunum sé ætlað að koma í veg fyrir að aðilar utan evrópska efnahagssvæðisins eignist ráðandi hlut i pólskum fjölmiðlafyrirtækjum. Sé þetta ætlað að koma í veg fyrir að rússneskir og kínverskir aðilar eignist ráðandi hlut í fjölmiðlafyrirtækjum.

Missir meirihlutann

Nýju fjölmiðlalögin hafa einnig haft mikil áhrif á stjórnarsamstarfið í landinu, sér í lagi eftir að forsætisráðherra landsins rak aðstoðarforsætisráðherrann á þriðjudag. 

Jaroslaw Gowin, formaður Samkomulags, eins af smærri stjórnarflokkunum, var látinn fara sem aðstoðarforsætisráðherra eftir að hafa talað gegn frumvarpinu. Flokkur Gowin sagði í kjölfarið skilið við ríkisstjórn landsins sem hefur leitt til þess að ríkisstjórn Mateusz Morawiecki er nú minnihlutastjórn.

Frumvarpið kemur nú til kasta efri deildar þingsins, sem gæti vel gert breytingar á frumvarpinu, en stjórnarandstæðingar eru í meirihluta í efri deildinni. Neðri deild þingsins hefur þó vald til að hafna breytingartillögum efri deildarinnar í Póllandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×