Fótbolti

Slæmt heimatap Norrköping í sex stiga leik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ari Freyr spilaði allan leikinn í kvöld, líkt og Ísak Bergmann.
Ari Freyr spilaði allan leikinn í kvöld, líkt og Ísak Bergmann.

Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson voru báðir í byrjunarliði Norrköping sem tapaði 2-1 fyrir Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Norrköping dregst aftur úr í baráttunni um Evrópusæti með tapinu.

Íslendingarnir tveir byrjuðu báðir í kvöld og léku allan leikinn fyrir Norrköping er Kalmar kom í heimsókn. Aðeins þremur stigum munaði á liðunum fyrir leikinn, Norrköping í hag, og gat Kalmar því jafnað liðið að stigum.

Nils Fröling kom Kalmar í forystu eftir rúmlega stundarfjórðungsleik og 1-0 stóð fyrir gestina í hléi. Fröling bætti svo öðru marki við eftir aðeins sjö mínútna leik í síðari hálfleik. Norrköping tókst ekki að minnka muninn fyrr en í lok leiks er Samuel Adegbenro minnkaði muninn á fimmtu mínútu uppbótartíma. Tvö mörk Frölings tryggðu Kalmar því 2-1 sigur.

Norrköping er með 20 stig í sjötta sæti deildarinnar eftir úrslit kvöldsins og Kalmar fer upp að hlið liðsins með sama stigafjölda sæti neðar. Norrköping er sjö stigum á eftir AIK sem er í þriðja sæti, neðsta Evrópusæti deildarinnar, þegar keppni í deildinni er tæplega hálfnuð.

Aron Bjarnason var ekki í leikmannahópi Sirius sem gerði markalaust jafntefli við Varbergs Bois í sömu deild. Sirius er með 16 stig í ellefta sæti, fimm stigum frá fallsæti.

Í Danmörku var nafni hans Aron Elís Þrándarson ekki heldur í leikmannahópi liðs síns OB frá Óðinsvéum sem tapaði 3-1 fyrir Nordsjælland á útivelli. OB er með fjögur stig í sjöunda sæti eftir fjóra leiki í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×