Innlent

Stjórnar pólitískum um­ræðu­þætti sem sitjandi þing­maður

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins í Valhöll
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins í Valhöll Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Páll Magnús­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, hefur verið fenginn til að halda utan um pólitíska um­ræðu­þætti á sjón­varps­stöð Hring­brautar fram að næstu al­þingis­kosningum 25. septem­ber. Páll er auð­vitað á­fram sitjandi þing­maður þangað til nýtt þing tekur við og mun því stýra þættinum sem slíkur.

„Það er enginn felu­leikur á bak við það,“ segir Páll í sam­tali við Vísi um nýju þættina. Þeir heita Pólitík með Páli Magnús­syni og verða á dag­skrá alla mið­viku­daga á Hring­braut fram að kosningum, alls sjö þættir. Fréttablaðið greindi frá þessu í gær.

Sá fyrsti verður sýndur næsta mið­viku­dag og verða þau Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og for­maður Vinstri grænna, og Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, gestir þáttarins.

En þurfa á­horf­endur að hafa á­hyggjur af hlut­leysi Páls þegar hann stýrir pólitískum þætti sem sitjandi þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins?

„Fólk veit hvaðan ég kem og verður síðan bara að meta það á eigin for­sendum hvort ég stjórnist af ein­hverjum annar­legum hvötum,“ segir Páll léttur í bragði.

„En það er auð­vitað það sem setur á þetta dá­lítið ó­venju­legan og kannski dýnamískan eða spennandi vinkil, að ég er þarna að tala við fólk sem ég hef haft sem starfs­fé­laga, svo að segja, eða verið í kringum og starfað með í pólitík, bæði banda­menn og and­stæðinga.“

Hann segir að formið sé vel þekkt erlendis. Í Bandaríkjunum sé til dæmis ekki óalgengt að bæði fyrrverandi og sitjandi pólitíkusar séu fengnir til að stýra viðtals- og umræðuþáttum.

Páll er auð­vitað afar reyndur fjöl­miðla­maður; starfaði í frétta­stjóra­stöðum hjá Stöð 2, RÚV og víðar og síðast sem út­varps­stjóri Ríkis­út­varpsins. Hann fór svo inn á þing árið 2016 en á­kvað að gefa ekki aftur kost á sér fyrir næstu þing­kosningar.

Fara menn þá beint aftur í fjöl­miðla?

„Ætli ég geri það ekki bara upp við mig þegar þessari seríu lýkur,“ segir Páll.

„Þá geri ég það upp við mig hvort ég hafi enn þá jafn­gaman að þessu og ég hafði. Ég er að bisast við að halda mig við þá reglu sem ég setti mér að gera bara það sem mér þykir skemmti­legt hverju sinni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×