Fótbolti

ÍBV og Afturelding með mikilvæga sigra í toppbaráttu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aftureldingastúlkur eru í gríðarjafnri baráttu um sæti í Pepsi Max-deildinni.
Aftureldingastúlkur eru í gríðarjafnri baráttu um sæti í Pepsi Max-deildinni. mynd/facebook síða aftureldingar/Lárus wöhler

Tveir leikir fóru fram í dag í Lengjudeildum karla og kvenna. ÍBV og Afturelding unnu sitt hvorn mikilvægan sigurinn.

Afturelding er ásamt KR og FH í gríðarjafnri baráttu um efstu tvö sæti Lengjudeildar kvenna en efstu tvö liðin fara upp í Pepsi Max-deildina að ári. Liðið heimsótti Hauka í kvöld á Ásvelli og þurfti sigur til að halda í við fyrrnefndu liðin tvö.

Skemmst er frá því að segja að Mosfellingar unnu nokkuð þægilegan 6-2 sigur.

Liðið er nú með 28 stig í 3. sæti, aðeins stigi á eftir bæði FH og KR, en FH er á toppnum vegna betri markatölu en KR. Haukakonur eru með 15 stig í 5. sæti, sex stigum frá fallsæti.

Í Lengjudeild karla fór ÍBV í heimsókn til botnliðs Víkings frá Ólafsvík, sem enn leita síns fyrsta sigurs í deildinni í sumar. Ísak Andri Sigurgeirsson og Breki Ómarsson skoruðu þar sitthvort markið í 2-0 útisigri Eyjamanna.

ÍBV treystir þar með stöðu sína í 2. sæti deildarinnar með 32 stig, sjö á undan Kórdrengjum og sex á eftir toppliði Fram. Fram á leik inni en Kórdrengir á tvo inni á ÍBV og geta þeir því komist aðeins stigi frá Eyjamönnum með sigrum í þeim tveimur leikjum.

Víkingur er sem fyrr á botni deildarinnar með tvö stig, átta stigum frá Þrótti í hinu fallsætinu, og tíu stigum frá öruggu sæti. Þeir eiga þó tvo leiki inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×