Erlent

WHO hvetur til að beðið verði með endur­bólu­setningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Tedros Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Tedros Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. AP/Christophe Ena

Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vill að þjóðir heims fresti því að endurbólusetja þegna sína gegn Covid-19 til þess að tryggja framboð á bóluefni fyrir lönd þar sem fáir hafa fengið fyrsta skammt ennþá.

Lönd eins og Ísrael, Frakkland og Þýskaland hafa þegar byrjað að endurbólusetja fólk til að freista þess að styrkja ónæmi þess gegn nýjum afbrigðum kórónuveirunnar. Fleiri lönd íhuga að fylgja í fótspor þeirra vegna uppgangs bráðsmitandi delta-afbrigðis veirunnar. 

Sóttvarnalæknir mælir með örvunarbólusetningu þeirra sem fengu einn skammt af Janssen-bóluefninu á Íslandi. Þá hefur öllum kennurum og starfsmönnum skóla sem voru bólusettir með Janssen verið boðin örvunarbólusetning með bóluefni Pfizer.

Tedros Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), benti á að ríkari þjóðir heims hafi þegar gefið um hundrað skammta af bóluefni gegn Covid-19 fyrir hverja hundrað íbúa að meðaltali í dag. Snauðari þjóðir hafi á sama tíma aðeins gefið um 1,5 skammta fyrir hverja hundrað íbúa, fyrst og fremst vegna skorts á framboði á bóluefnum.

Markmið WHO er að tryggja að í það minnsta 10% íbúa allra landa heims verði bólusett í haust. Í því skyni kallaði Ghebreyesus eftir því að endurbólusetningum yrði frestað þar til að minnsta kosti í lok september.

Sérfræðingar WHO telja það ekki vísindalega sannað að endurbólusetning fólks sem hefur þegar fengið tvo skammta bóluefnis gagnist til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Á sama tíma hefur stofnunin bent á að því lengur sem veiran fær að breiðast út um heiminn því líklegri verði að ný afbrigði komi fram sem geti dregið heimsfaraldurinn á langinn. 

„Eins og við hefur séð með hverju nýja afbrigðinu sem kemur fram komumst við ekki út úr þessu nema að allur heimurinn komist út úr þessu saman. Með þeirri gríðarlegu misskiptingu sem ríkir í dreifingu bóluefna mun okkur einfaldlega ekki takast það,“ segir Bruce Aylward, sérstakur ráðgjafi Ghebreyesus.

WHO hefur þó engin völd til þess að knýja þjóðir til þess að fara að tilmælum sínum. Margar þjóðir hafa hunsað tilmæli stofnunarinnar um að gefa fátækari þjóðum bóluefni og að auka framleiðslu þeirra í þróunarríkjum.


Tengdar fréttir

Til skoðunar að gefa þriðja skammtinn

Til skoðunar er að gefa þriðja bóluefnaskammtinn, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Um verður að ræða svokallaðan örvunarskammt og sérstaklega verður horft til viðkvæmra hópa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.