Erlent

Biden hvetur Cuomo til að segja af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Biden Bandaríkjaforseti svaraði því játandi þegar fréttamenn spurðu hann hvort að rétt væri að Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segði af sér vegna ásakana um kynferðislega áreitni í dag.
Biden Bandaríkjaforseti svaraði því játandi þegar fréttamenn spurðu hann hvort að rétt væri að Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segði af sér vegna ásakana um kynferðislega áreitni í dag. Vísir/EPA

Þrýstingur á að Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segi af sér stigmagnast nú vegna ásakana um kynferðislega áreitni hans. Joe Biden Bandaríkjaforseti og flokksbróðir ríkisstjórans bættist í hóp þeirra sem hvetja hann til þess að stíga til hliðar í dag.

Cuomo er sagður hafa áreitt að minnsta kosti ellefu konur kynferðislega í skýrslu rannsakenda dómsmálaráðherra New York-ríkis sem var gerð opinber í dag. Hann neitar ásökununum og hefur fram að þessu þverneitað að segja af sér.

Biden sagði fréttamönnum í dag að hann teldi rétt að Cuomo segði af sér. Áður höfðu Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hvatt Cuomo til þess.

Fari Cuomo ekki sjálfviljugur gæti ríkisþing New York sparkað honum úr stóli á næstunni. Þingið hefur undanfarið unnið að kærum vegna embættisbrots á hendur ríkisstjóranum og er sú vinna nú sögð langt komin. Carl Heastie, forseti neðri deildar ríkisþingsins, segir Cuomo ekki sætt í embætti og að hann hyggist ljúka rannsókn á embættisbrotum ríkisstjórans fljótt.

Konurnar sem Cuomo er sakaður um að hafa áreitt unnu bæði innan og utan ríkisstjórnar hans. Þær lýstu því hvernig ríkisstjórinn þuklaði á þeim, kyssti þær og talaði um útlit þeirra og kynlíf við þær. Í einu tilfelli hafi starfslið Cuomo beitt sér til að rýra trúverðugleika fyrrverandi starfsmanns sem sakaði hann um áreitni.


Tengdar fréttir

Hafnar því að hafa áreitt konur kynferðislega

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hafnaði því að hann hefði nokkru sinni snert konur á óviðeigandi hátt eða haft uppi óviðeigandi kynferðislega tilburði á blaðamannafundi í dag. Hann er sakaður um að hafa áreitt fjölda kvenna.

Sakaður um áreitni í garð minnst ellefu kvenna

Andrew M. Cuomo, ríkisstjóri New York, áreitti konur kynferðislega og beitti sér gegn einni þeirra sem sakaði hann opinberlega um áreitni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem Letitia James, ríkissaksóknari New York, opinberaði nú fyrir skömmu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×