Fótbolti

Brassar svalari á punktinum og komnir í úrslit á þriðju Ólympíuleikunum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Santos, Reinier og Richarlison fagna eftir sigur Brasilíu á Mexíkó í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó.
Santos, Reinier og Richarlison fagna eftir sigur Brasilíu á Mexíkó í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó. getty/Koki Nagahama

Karlalið Brasilíu í fótbolta er komið í úrslit á þriðju Ólympíuleikunum í röð eftir sigur á Mexíkó, 4-1, í vítaspyrnukeppni. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var markalaus.

Brassar urðu Ólympíumeistarar á heimavelli 2016 og eiga enn möguleika á að verja titilinn. Í úrslitaleiknum mæta þeir annað hvort Japönum eða Spánverjum. Leikur þeirra hefst klukkan 11:00.

Í vítakeppninni sýndu Brassar stáltaugar á meðan Mexíkóar klikkuðu á tveimur af þremur spyrnum sínum. Dani Alves, Gabriel Martinelli, Bruno Guimaraes og Reinier skoruðu úr sínum spyrnum fyrir Brasilíu.

Carlos Rodríguez var eini leikmaður Mexíkó sem skoraði úr sinni spyrnu. Santos varði frá Eduardo Aguirre og Johan Vásquez skaut í stöng.

Brasilíumenn voru sterkari aðilinn í leiknum sjálfum sem var frekar rólegur. Richarlison komst næst því að skora þegar hann skallaði í stöng. Everton-maðurinn hefur leikið vel á Ólympíuleikunum og skorað fimm mörk á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×