Innlent

Nóg um að vera í uppsveitum Árnessýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu.
Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu. Aðsend

Mikill fjöldi fólks er nú í Uppsveitum Árnessýslu þó engin skipulögð dagskrá sé þar í gangi. Ferðamálafulltrúi svæðisins segir þrátt fyrir það sé mikla afþreyingu í boði fyrir fólk. Miklar þrumur og eldingar voru á svæðinu síðdegis í gær og í gærkvöldi.

Öll tjaldsvæði í uppsveitunum eru full og mikill fjöldi fólks er í sumarbústöðum. Svæði eins og Laugarvatn, Flúðir, Reykholt, Árnes og Borg í Grímsnesi eru mjög vinsæl svo ekki sé minnst á þúsundir sumarbústaða sem eru á svæðinu, sem allir eru meira og minna fullir af fólki. Þrátt fyrir að engin skipulögð dagskrá sé í gangi vegna Covid þá er mikil afþreying í boði.

Ásborg Arnþórsdóttir er ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu.

„Það er margt í boði fyrir börn og fullorðna. Hérna er náttúrlega sundstaðirnir vinsælir, það eru tveir dýragarðar á svæðinu, það er golf og frísbígolf og meira að segja fótboltagolf og svo eru leikvellir og íþróttavellir og margir taka sér gönguferð í skógunum,“ segir Ásborg.

En er hún hrædd um einhverjar hópamyndarnir um helgina?

„Ekki held ég það, ég hef ekki heyrt um neitt slíkt. Þetta er fjölskyldufólk og allskonar fólk, sem virðist bara vera komið til að njóta, ekkert endilega til að halda einhverjar útihátíðir eða eitthvað slíkt.“

Tjaldsvæðið á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi er vel sótt um verslunarmannahelgina eins og önnur tjaldsvæði í uppsveitum Árnessýslu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það gekk mikið á í veðrinu í uppsveitunum síðdegis í gær og í gærkvöldi, sem varð til þess að rafmagnið fór af á einhverjum stöðum.

„Já, það var svolítil stemming, það voru rosalegar miklar þrumur og hávaði í töluverðan langan tíma, ég hef ekki upplifað svona mikið á Íslandi áður,“ segir Ásborg.

Ásborg segir að veðrið í dag og síðustu daga hafi verið stórkostlegt í Uppsveitum Árnessýslu.

„Þetta er alveg einstakt, þetta er búið að vera alveg ótrúlegt.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.