Innlent

Segir ekki um utan­vega­akstur við Hjör­leifs­höfða að ræða

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tökur fara nú fram fyrir bresku þættina Top Gear við Hjörleifshöfða.
Tökur fara nú fram fyrir bresku þættina Top Gear við Hjörleifshöfða. Bylgjan

Tökustaðastjóri hjá True North, sem stendur að kvikmyndatöku fyrir breska þáttinn Top Gear, segir ekki að um eiginlegan utanvegaakstur sé að ræða. Þá hafi komið upp einhver misskilningur hjá Umhverfisstofnun um að tökurnar séu ólöglegar.

„Hér er um einhvern misskilning að ræða. Við erum bara að sviðsetja hérna hlut, eins og við gerum í kvikmyndageiranum. Þá eru alls konar viðburðir sviðsettir og það er það sem er að eiga sér stað hérna við Hjörleifshöfða í dag,“ segir Guðmundur Guðjónsson, tökustjóri hjá True North, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að tökur fyrir bresku þættina Top Gear fari fram við Hjörleifshöfða í dag. Kvartmíluklúbburinn hafði auglýst á Facebook eftir þátttakendum í sandspyrnu fyrir þættina og sagði Guðmundur í samtali við mbl.is að það hafi verið nokkuð óheppilegt. Ekki sé um eiginlega keppni að ræða.

„Nei, nei, alls ekki. Og við erum í góðri samvinnu við landeigendur og erum að vinna þetta í nánu samstarfi við þá um hvernig öllu er til háttað hérna, þetta eru hlutir sem við höfum oft gert áður, bæði við Hjörleifshöfða og á fleiri stöðum víða um landið þar sem eðlilega fylgir okkar starfsemi eitthvert rask en við göngum auðvitað frá í samræmi við samkomulag okkar við landeiganda,“ segir Guðmundur í Reykjavík síðdegis.

Hann segir að True North hafi verið í samtali við Umhverfisstofnun um verkefnið.

„Þegar við erum að vinna í friðlandi eða þjóðgarði þá vinnum við það að sjálfsögðu með viðeigandi aðilum. Hérna erum við bara að vinna í samstarfi við landeiganda og erum með leyfi frá honum og leigjum landið af honum í þessum tilgangi og komum til með að skila landinu í sama ástandi og þegar við tókum við því,“ segir Guðmundur.

„Við höfum alltaf verið og erum í góðu samstarfi við umhverfisstofnun alls staðar þar sem við erum að vinna og við höfum átt í samtölum við þau í tengslum við þetta verkefni og erum með leyfi fyrir kvikmyndatöku þar sem er þörf á leyfi frá þeim.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.