Fótbolti

Rashford líklega á leið í aðgerð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rashford er sagður vilja fara í aðgerð vegna meiðslanna sem hafa hrjáð hann um nokkurt skeið.
Rashford er sagður vilja fara í aðgerð vegna meiðslanna sem hafa hrjáð hann um nokkurt skeið. EPA-EFE/Frank Augstein / POOL

Enski framherjinn Marcus Rashford, leikmaður Manchester United á Englandi, hyggst fara í aðgerð vegna axlarmeiðsla sem hafa plagað hann um nokkurra mánaða skeið. Líklegt er að hann yrði frá þar til október fari hann undir hnífinn.

Breskir miðlar greina frá því að Rashford muni ræða málin við starfsmenn hjá Manchester United í vikunni um hvort aðgerðin verði að veruleika. Starfsfólk félagsins mun hafa vonað að þriggja vikna frí framherjans eftir nýafstaðið Evrópumót myndi hjálpa honum að ná sér af meiðslunum.

Rashford tók lítinn þátt með enska landsliðinu á EM í sumar vegna meiðslanna en hann klúðraði vítaspyrnu í úrslitum mótsins á Wembley þar sem England hlaut silfur eftir tap fyrir Ítalíu.

Rashford mun snúa aftur til æfinga hjá United á sunnudag og mun þá funda með Ole Gunnar Solskjær, þjálfara liðsins, um næstu skref.

Fyrr í mánuðinum sagði Solskjær um stöðuna: „Við erum að skoða hvaða möguleiki er bestur í stöðunni. Hann fór burt í frí til að melta þetta. Við þurfum að taka þá ákvörðun sem er best fyrir hann og fyrir félagið. Við erum enn að skoða þetta með sérfræðingum.“

Rashford mun sjálfur vera hlynntur því að fara í aðgerð til að losna við meiðslin sem hafa hrjáð hann síðan í vor.

Endurhæfing eftir aðgerðina tekur líklega allt að þrjá mánuði og mun hann því ekki spila þar til í október hið fyrsta, fari svo að hann láti skera sig upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×