Innlent

Þriðji starfs­maður heilsu­gæslunnar greindist með veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Starfsmenn heimahjúkrunar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem greinst hafa með kórónuveiruna eru orðnir tveir.
Starfsmenn heimahjúkrunar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem greinst hafa með kórónuveiruna eru orðnir tveir. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn heimahjúkrunar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem greinst hafa með kórónuveiruna eru orðnir tveir. Áður hafði verið greint frá því að einn starfsmaður heimahjúkrunar hefði greinst, auk starfsmanns á heilsugæslunni Sólvangi, sem sinnti ungbarnaeftirliti.

Þetta staðfestir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni, í samtali við fréttastofu. Annar starfsmanna heimahjúkrunar greindist fyrir helgi og erfiðlega gekk að manna í heimahjúkrun nú um helgina. Sigríður Dóra segir þó að starfsemi hennar sé aftur komin í eðlilegt horf.

„Það er auðvitað búið að auka við alla smitgát og fara í fyrra far varðandi allt það starf,“ segir Sigríður Dóra.

Fólki ráðlagt að mæta ekki á staðinn

Sólvangur var lokaður til klukkan eitt í dag en er nú opinn til klukkan fjögur, en síðdegisvakt verður ekki haldið úti á stöðinni. Þeim tilmælum er þá beint til fólks að notast við aðrar samskiptaleiðir en að koma á heilsugæslustöðvar, til að mynda hringja eða notast við netspjall Heilsuveru, til þess að draga úr líkum á að smit berist inn á stöðvarnar.

Gangi það ekki eru þó aðrar heilsugæslustöðvar með síðdegisvakt, auk þess sem Læknavaktin er opin.

Fréttablaðið greinir frá því að nú séu um sextán fjölskyldur með ungbörn í svokallaðri smitgát, þar sem smitaði starfsmaðurinn á Sólvangi sinnti þar ungbarnaeftirliti. Smitgát er úrræði sem notuð er þegar einstaklingar hafa mögulega verið útsettir fyrir Covid-19, en ekki er talin þörf á sóttkví.

Nánari upplýsingar um smitgát má nálgast á Covid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×