Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari Flensborgarskólans, segir í samtali við Vísi að ferðin hafi hvorki verið á vegum skólans né nemendafélags. Óneitanlega sé um að ræða leiðinlegar fregnir nú undir lok sumars. DV greindi fyrst frá málinu en flestir í ferðinni útskrifuðust frá skólanum í vor.
Hópurinn kom til Íslands með erlendu leiguflugi auk annarra farþega. Samkvæmt heimildum Vísis var ekki búið að senda alla farþega vélarinnar í sóttkví fyrr í dag og hefur það leitt til mikillar óvissu meðal farþega. Að sögn almannavarna er þó öllum um borð gert að fara í sóttkví og eiga nú allir að vera búnir að fá sent boð þess efnis.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, hvetur farþega sem eru efins um stöðu sína til að nýta sér netspjallið á Covid.is.
Stilltir og flottir krakkar
Erla segist hafa komið batakveðjum á ferðalangana og beðið þá um að fara varlega. Hún hefur fulla trú á því að stúdentarnir hafi fylgt helstu tilmælum þar sem þeir þekki þessar reglur
„Þau eru hlýðin og við erum nú vön ýmsu í framhaldsskólanum. Þau kunna allar þessar reglur, hafa staðið sig ofboðslega vel og fengu ítrekað hrós í vetur. Þetta eru stilltir og flottir krakkar en auðvitað er líf og fjör þegar maður er nítján eða tvítugur og fer í sína fyrstu ferð saman,“ segir Erla.
Fréttin var uppfærð klukkan 18:35 með upplýsingum frá almannavörnum.