Innlent

Færanlegur forstjóri Umhverfisstofnunar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar hér stödd á skrifstofu stofnunarinnar á Hellu, alsæl með að vinna í Rangárvallasýslu enda er hún fædd og uppalinn á Hvolsvelli.
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar hér stödd á skrifstofu stofnunarinnar á Hellu, alsæl með að vinna í Rangárvallasýslu enda er hún fædd og uppalinn á Hvolsvelli. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forstjóri Umhverfisstofnunar bregður oft undir sig betri fætinum og fer út á land með skrifstofuna sína en stofnunin er með starfsstöðvar á níu stöðum víðs vegar um landið. Forstjórinn segir að það verði mun meira úr verki þegar unnið er á landsbyggðinni í stað höfuðborgarinnar.

Störf án staðsetningar eru alltaf að verða vinsælli en gott dæmi um það er Landsbankahúsið á Selfossi en þar er verið að breyta tveimur hæðum í skrifstofuhótel fyrir 120 manns þannig að Sunnlendingar sem starfa á höfuðborgarsvæðinu geta þá unnið á sínu heimasvæði í stað þess að keyra daglega yfir Hellisheiðina í vinnu.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar er mjög færanleg í sínu starfi því hún flytur skrifstofuna sína í Reykjavík ótrúlega oft út á land þar sem stofnunin er með aðsetur. Síðustu daga hefur hún verið á Hellu með sínu starfsfólki þar.

En hvernig finnst forstjóranum að vinna úti á landi?

„Það er æðislegt, þetta er náttúrlega draumastarfið hvað það varðar. Mér finnst störfin oft vinnast betur úti á landi, maður slakar aðeins betur á og einhvern veginn finnst mér ég hafa fleiri mínútur í deginum, það er svolítið skrýtið.“

Sigrún segist mjög hrifin af verkefninu „Störf án staðsetningar“, sem er víða að ryðja sér til rúms.

„Já, það þýðir það að starfið er ekki bundið við einhverja eina starfsstöð en það er engu að síður starfsstöð til reiðu og tæknin gerir það að verkum að nú getum við fundað með hverjum sér og hvar sem er í gegnum Internetið.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.