Innlent

Tíðindalítið hjá lögreglu fyrstu nótt takmarkana

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Skemmtanalíf miðborgarinnar var tíðindalítið í nótt.
Skemmtanalíf miðborgarinnar var tíðindalítið í nótt. Vísir/Vilhelm

Greina má gríðarlegan mun á dagbók lögreglu frá því í nótt samanborið við aðfaranótt sunnudags í síðustu viku. Samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti og lokuðu skemmtistaðir klukkan 11 og þurftu allir að vera komnir út fyrir miðnætti.

Nóttin var tíðindalítil í miðborginni ef marka má dagbók lögreglu. Óskað var eftir aðstoð inni á skemmtistað þar sem einstaklingur svaf ölvunarsvefni.

Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um að vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Þessi tíðindalitla nótt er talsverð breyting frá fyrri viku, þar sem lögreglan hafði í nægu að snúast. Nokkur slys urðu á fólki og þó nokkuð var um slagsmál.

Tilkynnt var um slagsmál þar sem aðili var vopnaður hníf. Þá voru hópslagsmál þar sem einn var vopnaður hníf og annar hamri. Æstur einstaklingur gekk um vopnaður golfkylfu og var gleri kastað í afturrúðu sjúkrabifreiðar. Þá var einstaklingur sem áreitti gesti skemmtistaðar og tilkynnt um átök í bifreið á ferð.

Fyrr í vikunni sakaði Ásgeir Guðmundsson, eigandi Röntgen Bar, lögregluna um að beita dagbókarfærslum til þess að þrýsta á styttri opnunartíma skemmtistaða.

Hann vill meina að staða mála sé stórlega ýkt í dagbókarfærslum lögreglunnar um helgar. 

„Ég vill kannski gefa lítið fyrir það að miðbærinn hafi verið eins og stríðsástand síðustu daga. Þetta er bara gamla góða Reykjavíkur djammið. Lögreglan hefur gefið það út opinberlega að hún vilji stytta opnunartímann og hún beitir dagbókarfærslum til þess.“


Tengdar fréttir

Mikið um ölvunar­til­kynningar, há­vaða­til­kynningar og slags­mál

Fjöldi innbrota var tilkynntur til lögreglu síðastliðinn sólarhring og töluvert var um þjófnað. Eitthvað af þýfi fannst líka af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en mikill erill hefur verið hjá henni undanfarinn sólarhring. Mikið var um ölvunartilkynningar, hávaðatilkynningar og slagsmál og voru allir fangaklefar fullir eftir nóttina. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, sem ekki gafst tími til að rita í fyrr en nú.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.