Innlent

Mikið um ölvunar­til­kynningar, há­vaða­til­kynningar og slags­mál

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikill erill var á höfuðborgarsvæðinu í gær og sérstaklega mikið um slagsmál og ölvun.
Mikill erill var á höfuðborgarsvæðinu í gær og sérstaklega mikið um slagsmál og ölvun. Vísir/Vilhelm

Fjöldi innbrota var tilkynntur til lögreglu síðastliðinn sólarhring og töluvert var um þjófnað. Eitthvað af þýfi fannst líka af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en mikill erill hefur verið hjá henni undanfarinn sólarhring. Mikið var um ölvunartilkynningar, hávaðatilkynningar og slagsmál og voru allir fangaklefar fullir eftir nóttina. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, sem ekki gafst tími til að rita í fyrr en nú.

Frá klukkan þrjú í gær fram til klukkan átta var tilkynnt um þjófnað í verslun, innbrot í fyrirtæki, um mann að opna og fara inn í bíla og þjófnað á munum úr ólæstri bifreið. Þýfi fannst á fjórða tímanum í gær sem haldlagt var af lögreglu og fundust þrjú stolin reiðhjól sömuleiðis sem lögregla lagði hald á.

Tilkynnt var um eftirlitslaust barn sem var eitt að hjóla og var því haft samband við forráðamann sem hafði litið af ungu barninu eitt augnablik og misst sjónar á því.

Tilkynnt var um mann að drekka undir stýri í bifreið fyrir framan verslun á níunda tímanum í gær og stuttu síðar var tilkynnt um tvo aðila sem voru að neyta fíkniefna í bifreið í miðbænum. Sá sem tilkynnti það til lögreglu sagði þá hafa verið að sveifla hníf en fólkið fannst ekki þegar lögreglu bar að garði.

Tilkynnt var um slys á tólfta tímanum í gær en maður hafði dottið og slasast á mjöðm. Annað slys var tilkynnt eftir miðnætti í nótt, aðili hafði dottið og fengið skurð við auga.

Töluvert var um slagsmál í miðbænum í nótt. Tveir menn slógust á öðrum tímanum í miðbænum og annar þeirra með hníf. Þá var stuttu síðar tilkynnt um æstan mann með golfkylfu í hendi í miðbænum. Sá flúði lögreglu og hlýddi ekki fyrirmælum. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa í nótt.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um átök í bíl á ferð og stuttu síðar um hópslagsmál í miðbænum. Þar var einn vopnaður hníf og annar hamri. Þeir voru báðir handteknir en látnir lausir stuttu síðar eftir upplýsingaöflun lögreglu. Önnur hópslagsmál voru tilkynnt stuttu fyrir klukkan fimm í nótt en þau voru búin þegar lögreglu bar að garði.

Tilkynnt var um ölvaðan mann á miðri götu rétt eftir klukkan fimm sem var að reyna að stoppa eða hoppa fyrir bíla. Hann reyndist vera að reyna að leita sér að fari heim. Lögregla útvegaði honum að lokum leigubíl.

Tilkynnt var um umferðarslys í Vesturbæ Reykjavíkur á fjórða tímanum þar sem ökumaður hafði ekið bíl sínum ofan í holu. Þá var ekið á hjólandi mann á ellefta tímanum í morgun. Sá reyndist óslasaður en hjól hans var skaddað. Ökumaðurinn flúði vettvang.

Rétt um hálf sjö í morgun var tilkynnt um mann að reyna að komast inn í bíla og skemma eignir. Sá var vistaður í fangaklefa. Þá var tilkynnt um innbrot í fjölda bifreiða stuttu síðar í Vesturbænum, rúður voru brotnar og ýmsum munum stolið.

Eftirför fór fram í gærkvöldi en maður sem grunaður var um ölvunarakstur ók af stað þegar lögregla hafði af honum afskipti. Hann var að lokum handtekinn og vistaður í fangageymslu. Þá var ökumaður stöðvaður í Mosfellsbæ grunaður um fíkniefnaakstur með börn í bílnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×